Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Landsréttarmálið – stór áfangi í dag með úrskurði MDE

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg kveður upp úrskurð sinn í Landsréttarmálinu í dag, klukkan tíu að íslenskum tíma. Yfirdeildin ákvað síðasta haust að taka mál íslenska ríkisins til umfjöllunar eftir að dómstóllinn úrskurðaði það bótaskylt í mars 2019, vegna ólöglegrar skipunar dómara í Landsrétt. En um hvað snýst Landsréttarmálið?

Fall er ekki alltaf fararheill

Landsréttarmálið á sér langa, flókna og nokkuð afdrifaríka forsögu. Upphafið má rekja aftur til vormánaða 2017, þegar hæfnisnefnd birti lista með nöfnum þeirra 15 umsækjenda sem voru metnir hæfastir til að skipa sama fjölda dómarasæta við nýtt dómstig á Íslandi: Landsrétt. Skömmu síðar tilkynnti Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sínar tillögur að dómaraskipan. Þar var að finna fjögur nöfn sem ekki voru voru á lista hæfnisnefndarinnar og að sama skapi þurftu þá fjögur nöfn að víkja. Dómararnir áttu að hefja störf við nýjan dómstól 1. janúar 2018. Meðal þeirra sem Sigríður skipaði sem dómara, og var ekki á lista nefndarinnar, var Arnfríður Einarsdóttir.

Frá vinstri: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Jón Finnbjörnsson, Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð
Dómarar við Landsrétt. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lengst til vinstri á myndinni. Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Dómararnir 15 við Landsrétt

Dómstóll dæmdi dómurum bætur vegna dómstóls

Þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson voru tveir þeirra fjögurra sem voru á lista nefndarinnar, en fengu ekki starfið sem þeir sóttu um. Þeir höfðuðu báðir mál á hendur íslenska ríkinu og dæmdi Hæstiréttur, í desember 2017, svo að ráðherra hafi brotið lög með því að víkja frá listanum án þess að hafa rannsakað málið nægilega vel. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu um meðferð Alþingis á tillögum Sigríðar, á þeim forsendum að ekki hafi verið bætt úr „þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var talin haldin.” 

Ríkið þurfti þá að greiða Ástráði og Jóhannesi 700 þúsund krónur í miskabætur. Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við MDE, tekur fram í grein á vefsíðu sinni um málið, að því skuli haldið til haga að ráðherra mátti alveg skipa dómara sem voru ekki á listanum, en Hæstiréttur taldi ákvörðunina ekki byggja á nægilega góðum rannsóknum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Ástráður Haraldsson vildi verða dómari við Landsrétt, var metinn meðal 15 hæfustu, en fékk ekki starfið. Hann fór í mál og fékk dæmdar miskabætur.

Dómur fyrir umferðarlagabrot felldi íslenska ríkið

En Landsréttarmálinu var aldeilis ekki lokið með þessum dómum Hæstaréttar, sem féllu fyrir rétt þremur árum. Davíð Þór rekur málið ágætlega í grein sinni og stuðst verður meðal annars við hana hér. 

Guðmundur Andri Ástráðsson var sakfelldur í héraðsdómi og síðan Landsrétti fyrir margvísleg umferðarlagabrot; meðal annars fyrir að keyra próflaus og undir áhrifum. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, skaut málinu til Hæstaréttar, aðallega á þeim forsendum að fyrrnefnd Arnfríður hafi dæmt í máli hans fyrir Landsrétti, verandi þar ólöglega skipuð sem dómari, samanber dóm Hæstaréttar í máli Ástráðs og Jóhannesar. Guðmundur hafi þannig ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti. 

Davíð Þór segir í grein sinni að „í mjög stuttu og einfölduðu máli” hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að þótt Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög í aðdraganda skipunar Arnfríðar, væri hún engu að síður skipuð dómari við Landsrétt og hefði verið talin til þess hæf. Það er meðal ástæðna sem Hæstiréttur taldi ekki næga ástæðu til að draga það í efa að Guðmundur hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið réttláta málsmeðferð. 

Guðmundur kærði málið til MDE á þeim forsendum að réttur hans til til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, hafi verið brotinn. Aðalatriðin í kæru Guðmundar til MDE voru þau sömu og til Hæstaréttar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Stígur Helgason - RÚV
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Andra, í dómsal MDE

Ráðherra segir af sér og nýr dómstóll skellir í lás

Mannréttindadómstóllinn ákvað að taka málið fyrir og kvað upp úrskurð sinn að morgni 12. mars 2019. Niðurstaðan: Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, braut lög með skipun dómara Landsrétt. Nánar tiltekið var brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða aum 15 þúsund evrur, rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, í málskostnað. Sama kvöld sagðist Sigríður ekki sjá neina ástæðu til þess að segja af sér, enda væri hún ósammála úrskurði MDE. 

Þó að vika sé oft langur tími í pólitík, getur líka margt gerst á einum sólarhring. Landsréttur skellti í lás sama dag og MDE kvað upp úrskurð sinn og skömmu eftir hádegi daginn eftir, virtist Sigríður Andersen hafa skipt um skoðun frá því deginum áður, og sagði af sér sem dómsmálaráðherra.  

Sjaldgæft að mál fái aðra meðferð

Um mánuði síðar, í apríl í fyrra, ákvað ríkisstjórnin að freista þess að skjóta úrskurðinum til yfirdeildar MDE til að sjá hvort hún tæki það fyrir. Sú ákvörðun lá svo fyrir í september 2019: Landsréttarmálið skyldi flutt á ný fyrir efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Seinni málflutningurinn var nú í byrjun febrúar þessa árs. MDE hefur samþykkt rúm fimm prósent beiðna um áfrýjun til yfirdeildarinnar (e. Grand Chamber), þar af eru um 2,7 prósent mála þess eðlis að ríki óski áfrýjunar. Ljóst er því að málið er bæði talið mikilvægt, sérstakt og hefur að öllum líkindum fordæmisgildi.  

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur - RÚV
Sigríður Á. Andersen sagði af sér ráðherraembætti daginn eftir að dómurinn féll í Strassborg.

Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 og hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi. Hlutverk dómstólsins er að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins (e. Council of Europe) virði þau réttindi sem kveðið er á um í mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirdeildin var stofnað 1998. Forseti og varaforseti mannréttindadómstólsins eiga sæti í henni, sem er æðra dómstig, ásamt öðrum dómurum, en engir aðrir dómarar sem hafa áður dæmt í viðkomandi máli eiga þar sæti.

Fréttin verður uppfærð. 

Yfirdeildin kveður upp úrskurð sinn í dag klukkan 10 að íslenskum tíma og verður það gert í gegn um fjarfundarbúnað.

Hægt er að nálgast færsluna hér