Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvaða tillögur dró Þórólfur til baka?

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Í tillögum að nýjum sóttvarnareglum sem sóttvarnalæknir dró til baka var meðal annars heimilt að opna sundlaugar aftur að hluta og að samkomubann yrði miðað við 20 manns í stað 10.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sendi heilbrigðisráðherra minnisblað 25. nóvember eða á miðvikudaginn í síðustu viku. Þá var ástandið nokkuð annað en  síðustu daga: þrjú til sjö smit daglega og flest í sóttkví. Undir þessum kringumstæðum sendi sóttvarnalæknir ráðherra minnisblað og tók skýrt fram að tillögur um ákveðnar tilslakanir væru lagaðar fram með þeim fyrirvara að faraldurinn breyttist ekki frá  25. nóvember. En hvað lagði sóttvarnalæknir til? Hann lagði til að nýjar reglur myndu gilda næstu tvær vikur eða frá 2. desember.
 

Úr 10 í 20

Hann lagði til að almennar fjöldatakmarkanir yrðu miðaðar við 20 manns með ákveðnum undantekningum. Takmarkanir nú miðast við 10 manns og verða það næstu viku að minnsta kosti. Tillaga sóttvarnalæknis var líka að börn fædd 2005 og síðar yrðu undanþegin 20 manna reglunni.

Hann lagði til að nándarreglan yrði áfram tveir metrar með ákveðnum undantekningum. Börn fædd 2005 og síðar yrðu undanþegin tveggja metra reglunni.

Sundlaugar opnaðar að hluta

Lagt var til að sund- og baðstaðir yrðu opnaðir á nýjan leik. Hámarksfjöldi gesta yrði þó miðaður við 50% af leyfilegum fjölda. Og aftur yrðu börn 15 ára og yngir undanskilin eða teldust ekki með.

Tillaga sóttvarnalæknis var að líkamsræktarstöðvar yrðu áfram lokaðar.

Íþróttaæfingar leyfðar

Tilslakanir vegna íþrótta voru boðaðar. Nú eru allar íþróttir 15 ára og eldri bannaðar. Sóttvarnalæknir lagði til að íþróttaæfingar fullorðinna með eða án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ yrðu leyfðar í efstu deildum. Miðað var við að hámarksfjöldi í hverju hólfi yrði 25 manns. Þá var lagt til að æfingar afreksfólks í einstaklingsíþróttum yrðu heimilaðar. Hins vegar voru bardagaíþróttir sem krefjast snertingar bannaðar. Þá var lagt til að sameiginleg búningsaðstaða yrði lokuð. Áhersla var lögð á að tæki og tól yrðu sótthreinsuð tvisvar á dag. Lagt var til að íþróttakeppni yrði áfram óheimil.

Vildi slaka á reglum um sviðslistir

Sviðslistir og sambærileg starfsemi er óheimil samkvæmt reglum sem nú hefur verið ákveðið að framlengja um sjö daga. Sóttvarnalæknir vildi slaka á þessu reglum. Æfingar með snertingu yrðu leyfðar með allt að 30 manns á sviði. Þegar listflutningur færi fram ættu menn að bera grímur og leitast við að viðhalda tveggja metra reglunni. Sótthreinsa átti sameiginlegan búnað tvisvar á dag. Þá var lagt til að heimilt yrði að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum í hverju hólfi og gestir yrðu að vera með grímur. Ekki átti að vera hlé né áfengissala. Þá var lagt til að seld yrði í númeruð sæti og haldin skrá yfir gesti. Þá átti að heimila  að taka á móti grunn- og leikskólabörnum á sýningar með þeim reglum sem gilda um skólastarfið.

Það hefur verið kvartað yfir því að ekki megi fleiri en 10 vera í einu inn í verslunum. Lagt var til að 50 manns mættu vera í verslunum í hverju hólfi. Bæta mátti við einum viðskiptavini fyrir hverja 10 fermetra að hámarki 200. Sem fyrr átti að gæta að viðhafa tveggja metra regluna.

20 manns á veitingastöðum

Veitingastaðir mega aðeins taka á móti 10 manns samkvæmt núgildandi reglum. Lagt var til að þeir gætu tekið á móti 20  manns í hverju rými og börn áttu ekki að teljast með. Afgreiðslutími átti eftir sem áður að vera til 21.

Krár og spilasalir áttu að vera lokaðir áfram og grímuskyldan átti að vera sú sama og verið hefur.

Þetta voru tillögurnar sem sóttvarnalæknir lagði til með fyrirvara 25. nóvember og heyra nú sögunni til.  29. nóvember eða á sunnudaginn dró hann minnisblaðið til baka. Það var gert í ljósi þess að daglegum smitum hafði fjölgað. Frá því að vera þrjú til fjögur upp í tuttugu. Í nýja minnisblaðinu bendir sóttvarnalæknir á að það virðist stefna í línulegan vöxt smita og hugsanlegan veldisvöxt. Minnisblaðið var einfalt. Þórólfur lagði til að núverandi reglur ættu að gilda áfram næstu tvær vikur. Daginn eftir sendi hann ráðherra þriðja minnisblaðið þar sem hann viðraði hugmyndir um að slaka á sóttvarnareglum úti á landi í ljósi þess að lang flest smit hefðu verið að greinast á höfuðborgarsvæðinu

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV