Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Heimurinn handan málverksins

Mynd: RÚV / RÚV

Heimurinn handan málverksins

01.12.2020 - 14:23

Höfundar

ÓraVídd nefnist yfirlitssýning á verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar, sem opnuð var á Kjarvalsstöðum á dögunum. Sigurður hefur á undanförnum 30 árum opnað fyrir áhorfendum það sem kalla má huliðsheima málverksins.   

Sigurður Árni er fædddur á Akureyri árið 1963. Hann er menntaður á Íslandi og í Frakklandi og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1999. Á sýningunni á Kjarvalsstöðum má sjá verk sem spanna yfir 30 ára tímabil.  

Sigurður Árni segir forvitnilegt að sjá feril sinn soðinn niður í eina sýningu. 

„Það kristallast ákveðið samtal sem maður á við sjálfan sig og getur verið yfir mörg ár, jafnvel áratugi. Ég hef alltaf sagt að málverkið, myndlist yfir höfuð, þetta er þolinmæðisvinna, og þróun hugmynda hún gerist á löngum tíma.“  

Markús Þór Andrésson sýningarstjóri bendir á að Sigurður Árni sé málari að upplagi og hafi byrjað að vinna út frá hinum tvívíða fleti málverksins. 

„Þá vaknar sjálfsagt hugmyndin hjá honum sem ungum listamanni: hvar eru mörk þessa fyrirbæris, málverksins. Mér finnst eins og hann hafi mjög snemma farið þá leið að brjóta upp þetta form og fara út fyrir hið ferhyrnda form strigans, jafnvel bakvið strigann og fara í leik sem opnar þessa tvívídd út.“  

Sigurður Árni var lengi upptekin af landslagsmálverkum, sérstaklega Jóni Stefánssyni. Þær pælingar fóru lengra og urðu meira abstrakt eftir því sem á leið. Um miðjan 10. áratuginn fór hann að vinna með garða og gerði módel af kúlutrjám sem unnu í samspili við ljósgjafa. 

„Og af því að ég fékk ekki að búa til raunverulegan garð þá gerði ég málverk; það var raunveruleikinn fyrir mig sem málara, sjálf framkvæmdin. Þarna var komin ákveðin harmónía þar sem allt á að vera fullkomið eins og í náttúrunni, þar sem er þessi endalausa hringrás.“ 

Leikur Sigurðar Árna með hringrás náttúruaflanna hélt áfram í Sólöldu; verki sem hann hannaði á Sultartangavirkjun og var vígt um aldamótin. Verkið er hannað með hliðsjón af skugga við hæsta sólargang á sumarsólstöðum. Tveggja metra langar plötur skaga út úr vegg virkjunarinnar í öldulaga formi og mynda skugga sem breytast í takt við sólarganginn. Á hæsta punkti sólar mynda göt á enda platnanna fullkominn hring á veggnum.  

„Þarna verður fullkomin harmónía í verkinu. Alveg eins og sólin bræðir ís í vatn sem virkjunin breytir í rafmagn býr sólin þetta verk til.“ 

Nýjustu verkin á sýningunni eru frá því í ár: litaðir plexíglerrammar sem varpa skugga á vegginn sem þeir hanga á.

„Hér höfum við sökkul listasögunnar. Listasagan hangir á blindramma en hér er það blindramminn sem varpar málverkinu á vegginn.“  

Markús segir það einkennandi fyrir verk Sigurðar Árna, hvort sem þau eru ný af nálinni eða gömul, hversu aktúel þau séu.

„Þau eru mjög í takt við það að leyfa okkur áhorfendum að vera með. Eina leiðin til að fjalla um málverk í dag er að taka þennan þátt inn.“

Fjallað var um sýninguna ÓraVídd í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.