Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Farsóttin kallar á stóraukna neyðaraðstoð víða um heim

epa08578058 People wait for COVID-19 tests at the border point between Costa Rica and Nicaragua in Penas Blancas, Costa Rica, 31 July 2020. According to reports, nearly 300 Nicaraguans stranded on the border, due to the closure of the Costa Rica and Nicaragua border, have received COVID-19 tests after being at the border point for two weeks.  EPA-EFE/Jeffrey Arguedas
Fólk á flótta undan örbirgð og átökum bíður eftir að komast í COVID-19-skimun í neyðarathvarfi á landamærum Kostaríka og Níkaragva. Mynd: epa
Sameinuðu þjóðirnar þurfa meira fjármagn til að sinna neyðaraðstoð á næsta ári en nokkru sinni fyrr, þar sem þeim sem búa við sára fátækt hefur fjölgað um tugi milljóna vegna heimsfaraldursins og hungursneyð vofir yfir á mörgum stöðum í heiminum. Áætluð fjárþörf þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem sinna neyðaraðstoð er 35 milljarðar Bandaríkjadala árið 2021, um 4.600 milljarðar íslenskra króna. Þetta er um 40 prósenta aukning milli ára.

Heimsfaraldurinn er aðalástæðan fyrir aukinni neyð

„Þessa auknu þörf má nánast alfarið rekja til COVID-19," sagði Mark Lowcock, samræmingarstjóri neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna á árlegum fundi samtakanna þar sem farið er yfir fjárþörf hjálparstarfsins á komandi ári og kallað eftir framlögum frá ríkjum heims.

Útlitið sjaldan svartara

Myndin sem dregin er upp af ástandi mála á þessum fundum er oftar en ekki í dekkra lagi, en hún hefur sjaldan eða aldrei  verið jafn svört og nú. Heimsfaraldurinn, sem hefur orðið 1,45 milljónum manna að aldurtila og svipt milljónir lífsviðurværi sínu að hluta eða öllu leyti, kemur hlutfallslega verst niður á þeim sem verst voru stödd fyrir.

Fjármagnið sem farið er fram á nægir til að hjálpa um 160 milljónum öreiga í 56 ríkjum heims, segir í ákalli Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur einnig fram að fólki sem býr við sára fátækt eigi eftir að fjölga á næsta ári, í fyrsta skipti síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Ævilíkur munu minnka og dauðsföll af völdum HIV, berkla og malaríu allt að tvöfaldast.

Líkur á störfelldri hungursneyð vaxa á ný

Það sem vekur einna mestan ugg, að sögn Lowcocks, er hættan á hungursneyð, jafnvel fleiri en einni á ýmsum stöðum í heiminum. Það sem af er þessari öld hefur aðeins ein stórfelld hungursneyð dunið yfir. Sú var í Sómalíu fyrir tæpum áratug, og flest virtist benda til að slíkar hörmungar heyrðu sögunni til, sagði Lowcock. En nú, segir hann „blikka rauðu ljósin og viðvörunarbjöllurnar hringja hástöfum.“

Smáaurar í hinu stóra samhengi

Lowcock segir að þótt 35 milljarðar Bandaríkjadala kunni að virðast feikihá upphæð, þá séu þetta í raun smáaurar í samanburði við það sem auðugustu ríki heims séu að ausa úr sjóðum sínum til að halda eigin efnahagslífi gangandi.

„Það sem hér er í húfi eru líf gríðarlegs fjölda fólks í bráðum og miklum vanda, og kostnaðurinn við að bjarga lífi þeirra er í reynd afar lítill þegar horft er til alls annars sem við erum að takast á við.“