Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Deilt um hvort sakfella hafi átt fyrir kynþáttahatur

Mótmæli í Borgundarhólmi í dag. - Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Danskir bræður á þrítugsaldri voru í dag dæmdir til fjórtán ára fangelsisvistar fyrir morð í Borgundarhólmi í sumar. Deilt er um hvort þeir hefðu einnig átt að fá dóm vegna kynþáttahaturs. 

Hinn látni, Phillip Mbuji Johansen, var tuttugu og átta gamall, af dönskum og tansanískum uppruna. Talið er að mennirnir þrír hafi verið vinir. Bræðurnir sögðu við réttarhöldin að þeir hefðu ekki ætlað að fremja morð, heldur að hræða Johansen, sem þeir sökuðu um að hafa nauðgað móður þeirra.

Gagnrýnt hefur að þeir hafi ekki verið sakfelldir fyrir kynþáttahatur, en saksóknari sagði erfitt að sanna slíkt. Mótmælt var fyrir utan dómstólinn í dag. 

Lögðu hné að hálsi hins látna

Bræðurnir voru fundnir sekir um hrottalega og langvarandi árás, sem stóð yfir í fimmtán til tuttugu mínútur. Réttarmeinafræðingur kvaðst aldrei hafa séð eins mikla áverka. Hinn látni var fótbrotinn, brenndur, stunginn, með heilaskaða og hné hafði verið þrýst að hálsi hans. Við réttarhöldin kom fram að annar sakborninganna væri með hakakross húðflúraðan á fótlegginn, að því er danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá. 

Vinir telja ekki að kynþáttahatur sé rótin

Morðið var framið á dönsku eyjunni Borgundarhólmi 23. júní, á sama tíma og mótmælt var víða um heim eftir að lögreglumaður varð George Floyd að bana í Bandaríkjunum. Vinir hins látna telja þó ekki að kynþáttahatur hafi verið rót árásarinnar. Þeir fjölmenntu einnig fyrir utan dómstólinn í dag, ásamt eyjaskeggjum, sem telja rangt að tengja ódæðisverkið við kynþáttahatur. „Ég tel að þau hafi rangt fyrir sér, þetta hefur ekkert með kynþáttahatur að gera.  Lögreglan hefur rannsakað það í þaula,“ sagði Emma Saksaa, vinkona hins látna í dag.