Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Deildar meiningar um hálendisþjóðgarð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis og auðlindaráðherra
 Mynd: RÚV
Umhverfisráðherra segir hálendisþjóðgarð vera ómetanlegustu náttúru sem finnist í heiminum og hann verði stærsti þjóðgarður Evrópu. Formaður Framsóknarflokksins kallar eftir miklu meira samráði því samtalið hafi mistekist við það fólk sem búi næst þjóðgarðinum. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra lagði fram á Alþingi í gær frumvarp um hálendisþjóðgarð. Frumvarpið er breytt frá því frumvarpi sem ráðherra ætlaði að leggja fram í fyrra, en tókst ekki, til dæmis stendur ekki til að setja á laggirnar þjóðgarðsstofnun. Þá segir ráðherra að reynt sé að mæta kröfum sveitarfélaganna varðandi skipulagsvald og skiptingu í rekstrarsvæði

„Við höfum líka mætt náttúrverndarhreyfingunni og Landsvirkjun  með því að taka þau svæði sem þegar er búið að virkja og hafa þau utan við þjóðgarðinn,“ segir Guðmundur.

Þú setur þetta mál á oddinn af hverju er svona mikilvægt að stofna þennan hálendisþjóðgarð?

„Vegna þess að þetta er ein ómetanlegasta náttúra sem þú finnur í heiminum sem þarna er saman komin þarna ægir saman ótrúlegum fjölbreytileika í landslagi óbyggðum víðerni jarðminjum og samspili við lífríkið.“

Ráðherra bendir á að aðdráttarafl þessa sem verður stærsti þjóðgarður í Evrópu geti skipt sköpum við endurreisn ferðaþjónustunnar.

En málið er umdeilt, sveitarstjórnarfólk er víða ósátt, þingmenn í Sjálfstæðisflokki og Framsókn líka og formaður Framsóknarflokksins skrifaði langa færslu á Facebook í dag þar sem hann fer yfir fyrirvara þingflokksins og ítrekar að samtalið hafi mistekist við það fólk sem búi næst þjóðgarðinum, það verði að viðurkenna. Sigurður Ingi segir að þannig verði aldrei til þjóðgarður allra Íslendinga.

Páll Magnússon formaður allsherjarnefndar er á móti frumvarpinu því það sé gert í andstöðu við sveitarfélög. „Fyrir mér er þetta algjört grundvallaratriði að það sé ekki hægt að ljúka máli af þessari stærðargráðu nema í sátt við þá sem eiga að lifa við það,“ segir Páll.

Hvernig sérðu fyrir þér að þetta geti farið í gegnum þingið?

„Með því að það verði gerðar þær breytingar að sveitarfélögin á svæðinu telji sig geta lifað við það.“