Bubbi segir ritvillurnar senda góð skilaboð

Mynd: RÚV / RÚV

Bubbi segir ritvillurnar senda góð skilaboð

01.12.2020 - 22:34

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens setti upp myndlistarsýningu í Kringlunni í dag þar sem textar hans með öllum sínum kostum og göllum eru til sýnis.

Bubbi segir að Hrafnhildur kona hans hafi farið upp á háaloftið heima og komið niður með kassa með fjölda textabóka. Þarna voru dagbækur frá Staðarfelli og víðar, textar frá árinu 1974 til 1990.

„Þarna blasti við mér hvílíkur fjársjóður af orginal textum, Rómeó og Júlíu, Blindskeri og ég veit ekki hvað og hvað með öllum þeim hnörkum sem dópaður maður er með og líka skrifblindur maður og allt þetta.“

Þetta er ekkert ritskoðað áður en þetta fer á sýninguna?
„Nei, ekkert. Þetta er veggur hinna skrifblindu.“

Bubbi segist í raun stoltur yfir að hafa ekki látið málóttann ná tökum á sér í samfélagi sem gríðarlega mikið sé lagt upp úr að tala og skrifa rétt. „Ég held að þetta séu góð skilaboð til allra þarna úti sem eru skrifblindir og þora ekki; stigið þið fram, ekkert mál.“

Bubbi getur ekki frekar en aðrir tónlistarmenn haldið tónleika vegna COVID-19 og hann því hugsaði hvað hann gæti gert. Honum datt í hug að nýta textana nýfundnu og breyta í myndlist. 25 eintök eru af hverju textabroti, á bómullarpappír, númerað, áritað og vottað. Bubbi segir ritvillurnar vera góð skilaboð.

Hér er nú dálítið athyglisvert hvernig þú skrifar wild í Wild is the wind.
„Já, já. Bara V Æ L D, bara væld eins og borið er fram á íslensku. Ég man þegar ég sá þetta í bókinni; ég sagði á ég að laga þetta? Nei, við lögum ekki neitt Bubbi minn. Við erum stoltir, við erum skrifblindir. Í rauninni er þetta vitnisburður um hugrekki.“