Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stuðningur við fjölmiðla aukinn frá fyrra frumvarpi

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Í nýju frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum er kveðið á um meiri fjárstuðning við einkarekna fjölmiðla en í frumvarpi sem lagt var fram fyrir tæpu ári. Þá stóð til að hann yrði að hámarki 18 prósent af rekstrarkostnaði fjölmiðla en samkvæmt nýju frumvarpi getur hann numið allt að 25 prósentum af rekstrarkostnaðinum.

Frumvarp um breytingu á lögum um fjölmiðla hefur verið lagt fram af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Einkarekinn fjölmiðill telst sá „sem er hvorki í heild né að hluta í eigu ríkis, sveitarfélaga, stofnana eða félaga alfarið í þeirra eigu.“ Markmiðið með stuðningi við þá er að „jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum.“

Fjölmiðill þarf að standa í skilum

Stuðningurinn er vegna hluta kostnaðar við öflun og miðlun frétta til að styðja við útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Til að eiga rétt á stuðningi þurfa einkareknir fjölmiðlar meðal annars að vera með þrjá starfsmenn í fullu starfi við að afla og miðla efni en staðbundnir miðlar einn. Staðbundnir miðlar teljast þeir sem eru „landshluta-, héraðs-, hverfis- eða bæjarmiðill sem hefur fyrst og fremst staðbundna efnisskírskotun og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðilsins.“

Auk þess þurfa fjölmiðlar að standa í skilum á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar vegna undangengins árs, ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda og laun og réttindi starfsfólks í samræmi við lög og kjarasamninga.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV

Stuðningshæfur rekstrarkostnaður samkvæmt nýju frumvarpi er beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara vegna öflunar og miðlunar á efni. Auk þess teljast verktakagreiðslur stuðningshæfar.