Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Náðaðir eftir brot gegn auðgunar- og vopnalögum

30.11.2020 - 07:09
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Fimm af þeim níu náðunartillögum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti ríkisstjórninni á þriðjudag snerust um refsingar fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá voru fjórir náðaðir eftir auðgunarbrot, skjalafals og brot gegn áfengislögum og vopnalögum.

Refsingar við brotunum voru allt frá 30 dögum upp í fjögurra mánaða fangelsi. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Í síðustu viku var greint frá því að dómsmálaráðherra hefði kynnt fyrir ríkisstjórninni níu náðunartillögur sem voru lagðar fram samkvæmt tillögu starfshóps dómsmálaráðherra um aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga.  Tillögurnar fóru þaðan til undirritunar forseta. 

Ein af þeim sjö tillögum sem starfshópurinn lagði fram í skýrslu í júní síðastliðnum var að veita þeim sem væru búnir að vera á boðunarlista lengur en í þrjú ár, hafa verið dæmdir fyrir minni háttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu, skilorðsbundna náðun. Í skýrslunni segir að með því megi fækka töluvert á boðunarlistanum, líkt og hafi verið gert í Danmörku árið 2005.  

Þar kemur einnig fram að löng bið eftir afplánun í fangelsi sé í raun viðbótarrefsing sem geti haft neikvæð áhrif á dómþola. 116 dómþolar hafi verið á boðunarlista í þrjú ár eða lengur.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV