Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landamæri Chile opnuð á ný eftir 8 mánaða lokun

epa08481826 View of the Andes mount range overlooking Santiago, Chile, 12 June 2020.  EPA-EFE/Alberto Valdes
Santíagó, höfuðborg Chile. Andesfjöllin í baksýn. Mynd: epa
Stjórnvöld í Chile hafa ákveðið að opna landamæri sín fyrir erlendum ferðalöngum eftir átta mánaða langt ferðabann, sem innleitt var til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirufarsóttarinnar í landinu. Sebastián Piñera, forseti Chile, tilkynnti afnám ferðabannsins og sagði það mikilvægan áfanga í áætlun stjórnvalda um opnun landsins og tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum.

„Eftir fimm mánaða tímabil þar sem ástand í heilbrigðismálum hefur farið stöðugt batnandi, og þökk sé sameiginlegu átaki og framlagi allra Chilebúa og þeirra heilsuverndaraðgerða sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir, þá kynnum við hér með fyrsta stigið í enduropnun landamæranna fyrir erlendum gestum,“ sagði forsetinn.

Landganga heimil með skilyrðum

Landamærin hafa verið alveg lokuð fyrir erlendum gestum en frá og með deginum í dag er erlendum ríkisborgurum heimilt að ferðast til Chile frá öðrum löndum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ferðalangar þurfa að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr nýlegu COVID-19 prófi og heimila að fylgst sé með ferðum þeirra í tvær vikur eftir komuna til landsins með þar til gerðu smitrakningarappi.

Margvíslegar sóttvarnatengdar takmarkanir gilda áfram í landinu og útgöngubann um nætur mun gilda fram í miðjan desember hið minnsta. Yfir 15.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Chile og staðfest smit eru rúmlega 550.000.