Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kvörtun vegna ummæla Þórhildar í fánamáli vísað frá

30.11.2020 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisnefnd Alþingis telur ekki skilyrði til þess að taka fyrir kvörtun sem henni barst vegna ummæla Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í tengslum við fánamál lögreglunnar.

Málið kom upp eftir að mynd af táknum á búningi lögreglukonu birtist í fjölmiðlum. 

Þórhildur Sunna  sagði í umræðum um störf þingsins á Alþingi að ummæli umræddrar lögreglukonu um vanþekkingu á merkjunum bentu til þess að annað hvort skorti lögreglumenn fræðslu um rasísk og ofbeldisfull merki eða þá að rasismi og ofbeldismenning fengju að grassera innan lögreglunnar. „Hvort tveggja er óásættanleg staða.“

Í bréfi sem birt er á vef Alþingis kemur fram að þingið sé einstakur vettvangur fyrir umræður í lýðræðislegu þjóðfélagi. Engin þingmaður verði krafin reikningskapar utan þings fyrr það sem hann hefur sagt í þingi nema Alþingi leyfi.  

Telji borgari að forseti hafi ekki gætt þess að þingmenn gæti góðrar reglu í máli sem hann varðar verði að hafa í huga að athafnir eða athafnaleysi forseta við stjórn þingfunda sæta ekki endurskoðun.  Ágreiningur um slíkt verði ekki borin undir forsætisnefnd. Var umræddri kvörtun því vísað frá.