Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hvergi meiri samdráttur í Evrópu en á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 10,4 prósent borið við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Þetta er mesti samdráttur á þriðja ársfjórðungi í þeim Evrópulöndum sem hafa birt bráðabirgðaniðurstöðu sína.

Hagstofan segir að þennan mikla samdrátt megi fyrst og fremst rekja til utanríkisviðskipta. Þar vegi útflutningur í ferðaþjónusta þyngst sem dróst saman um 77 prósent borið saman við árið í fyrra.  

Samdráttur varð bæði í innflutningi og útflutningi. Í innflutningi er samdrátturinn rúmlega 26 prósent en í útflutningi tæp 39 prósent.

Einkaneysla á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 2,3 prósent en Hagstofan segir að á þriðja ársfjórðungi hafi bílakaup landsmanna tekið smá kipp miðað við sama tíma á síðasta ári. Þetta megi rekja til aukins innflutnings og sölu á rafknúnum bílum sem hafi farið mjög vaxandi á þessu ári.

Samkvæmt vef Hagstofunnar er samdrátturinn á þriðja ársfjórðungi hvergi meiri en á Íslandi af þeim Evrópulöndum sem hafa birt bráðabirgðaniðurstöðu sína. Næst mestur er samdrátturinn í Bretlandi, 9,6 prósent.  Landsframleiðsla á þessum ársfjórðungi dróst að meðtali saman um 4,4 prósent innan evrusvæðisins. 

Samdrátturinn er víða í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldurins. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru gistinætur á hótelum í október 91 prósenti færri en á sama tíma í fyrra. Fram kemur á vef Hagstofunnar að ekki sé hægt að áætla fjölda erlendra gistinátta á stöðum sem miðla heimagistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síðu þar sem landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands liggur niðri vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV