Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Geta framvísað vottorði um COVID-19 smit

30.11.2020 - 10:51
Mynd með færslu
Það hefur verið fámennt í Leifsstöð undanfarna mánuði. Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Frá og með 10. desember geta þeir sem hafa greinst með COVID-19 og náð heilsu á ný framvísað vottorði þess efnis við komuna til landsins. Hingað til hafa þeir sem hafa fengið COVID-19 ekki verið undanskildir þröfu um tvöfalda skimun og sóttkví, eða 14 daga sóttkví.

Breyta á reglum um vottorð frá og með 10. desember samkvæmt svari Landlæknisembættisins við fyrirspurn fréttastofu. Þá verður hægt að framvísa vottorði þess efnis að fólk hafi fengið sjúkdóminn og hafi náð sér að fullu. Tekin verða gild vottorð  frá rannsóknarstofum landa innan EES um jákvæð PCR próf sem þurfa að vera eldri en 14 daga. Einnig verða tekin gild vottorð um mælanleg mótefni á rannsóknarstofum með ákveðinni aðferð. 

Vottorðin þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur og verða lesin á landamærum. Undanfarna daga hafa borist fregnir af fólki sem býr erlendiss og hefur smitast af veirunni og náð sér að fullu en fengið þau svör frá yfirvöldum að ekki sé unnt að framvísa vottorði þess efnis. Á því verður breyting 10.desember.