Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frá dyravörslu í Ríkisútvarpinu til Nóbelsverðlauna

Mynd: RÚV / RÚV

Frá dyravörslu í Ríkisútvarpinu til Nóbelsverðlauna

30.11.2020 - 19:43

Höfundar

Ríkisútvarpið fagnar níutíu ára afmæli sínu með því að bjóða fólki að hlýða á upplestur fyrrum dyravarðar hjá RÚV á nokkrum skáldverkum sínum. Dyravörðurinn er þó heldur þekktari fyrir ritsmíðarnar en þetta er Halldór Laxness. 

Allir upplestrar Halldórs Kiljans Laxness sem til eru í safni RÚV hafa verið gerðir aðgengilegir almenningi í spilara RÚV. Upplestrarnir eru færðir þjóðinni að gjöf í samstarfi við dætur skáldsins.

„Okkur er vel við Ríkisútvarpið okkur systrum og þetta hefur vel geymt hér og varðveitt og okkur finnst það skipta meira máli að gefa þetta áfram en að taka við einhverjum tíköllum fyrir upplesturinn,“ segir Guðný Halldórsdóttir, dóttir skáldsins.

Halldór kastaði ekki til höndunum við upplesturinn.

„Hann tók þessu mjög alvarlega þegar hann var að lesa. Hann undirbjó sig og hann æfði sig. Hann tók út orð og bætti sumum við og stundum hló hann að því sem hann hafði skrifað,“ segir Guðný.
 
Afmælinu er líka fagnað með útvarpsþætti, Dyravörður hjá víðvarpinu, sem fjallar um samskipti Halldórs Laxness og Ríkisútvarpsins.

„Það má ekki gleyma því að það byrjar með því að Halldór er dyravörður hér hjá Ríkisútvarpinu í tæpt ár. Eina launaða vinnan sem hann tók nokkurn tímann að sér,“ segir Halldór Guðmundsson rithöfundur sem jafnfram gerði útvarpsþáttinn.

„Eftir það var hann mjög mikið í útvarpinu en það var sjaldan óumdeilt og stundum fór hann í feiknarlega fýlu og bannaði útvarpinu að útvarpa nokkrum sköpuðum hlut eftir sig. Svo jafnaði það sig aftur. Það var náttúrulega þannig að það mátti ekki orði á hann halla. Ef það var sagt eitthvað misjafnt um höfundaheiður hans. Til dæmis 1958 segir maður í einhverjum spjallþætti að þetta séu hálfgerð sorprit. Eftir það heyrðist ekki orð frá Halldóri í Útvarpinu í fimm ár,“ segir Halldór.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Allir lestrar Halldórs Laxness gerðir aðgengilegir

Menningarefni

Frumútgáfur bóka Laxness boðnar upp

Tónlist

Svona söng Halldór Laxness Maístjörnuna sjálfur