Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ferðagjöfin framlengd og getur orðið jólagjöf

30.11.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölmargir Íslendingar eiga enn eftir að nýta fimm þúsund króna ferðagjöf stjórnvalda og gildistími hennar verður líklega framlengdur fram á næsta vor. Ferðagjöfin átti að renna út um áramót en verði frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, samþykkt gildir hún út maí á næsta ári, eða í fimm mánuði til viðbótar.

Fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að þetta eigi að veita ferðaþjónustufyrirtækjum frekari viðspyrnu yfir vetrartímann og fram á vor. Um 175 þúsund hafa sótt ferðagjöfina og af þeim hópi eiga tæplega 50 þúsund manns eftir að nýta hana. Þar til viðbótar hafa yfir hundrað þúsund manns ekki enn sótt gjöfina. Hana má nýta til að kaupa ýmsa afþreyingu hér á landi, einnig má flytja hana yfir á annað fólk. Verði hún framlengd opnast betri möguleiki á að gefa gjöfina öðrum í jólagjöf.

Hér má kynna sér ferðagjöfina