Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eignarhaldsfélag Topshop í gjaldþrotameðferð

30.11.2020 - 21:24
epa08853194 Shoppers walk past the flagship Topshop in Oxford Street in London, Britain, 30 November 2020. The Arcadia retail group has announced that it is working on "rescue options" after media reports that could collapse into administration putting 15,000 jobs at risk.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Arcadia Group, sem Íslendingar þekkja ef til vill best til frá þeim tíma er Baugur Group freistaði þess að eignast hlut í því skömmu eftir aldamót, er komið í gjaldþrotameðferð. Um 13 þúsund störf eru í hættu.

Auk þess að reka Topshop á Arcadia fataverslanirnar Topman, Miss Selfridge, Dorothy Perkins, Evans og Burton en nokkrar þeirra voru reknar um tíma hérlendis. Eigandi þess, Sir Philip Green, hefur haft umtalsverð tengsl hingað til lands. Hann og Baugur Group unnu að yfirtöku á fyrirtækinu árið 2002. Eftir að Baugsmálið hófst dró Baugur sig út úr þeim viðskiptum. Green kom til Íslands eftir bankahrun og fundaði meðal annars með þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðssyni.

Enginn hefur enn misst vinnuna og rekstur meira en 500 verslana Arcadia heldur áfram meðan kaupenda er leitað fyrir allan reksturinn eða hluta hans. Meðan leitin stendur yfir er fyrirtækinu hlíft við að þurfa að standa skil á skuldum. Talið er að meira en tíu fyrirtæki hafi sýnt því áhuga á að kaupa Topshop að því er segir í frétt The Guardian.

Arcadia Group er með umtalsverðar lífeyrisskuldir á bakinu eða um 350 milljónir punda eða rúma 62 milljarða króna.