Alhliða öryggisnet til að bæta líf barna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Alhliða öryggisnet til að bæta líf barna

30.11.2020 - 18:04

Höfundar

Samþætta á öll kerfi sem styðja við börn sem verða fyrir áföllum ásamt fjölskyldum þeirra og þannig reyna að tryggja að börnin falli ekki á milli kerfa, samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra. Hann segir þetta gjörbyltingu sem eigi eftir að skila sér fjárhagslega.

Félags- og barnamálaráðherra hélt opinn kynningarfund í dag um frumvarp sitt um samþætta þjónustu í þágu hagsældar barna, en vinna við breytingarnar hófst vorið 2018 í samvinnu fjölmargra - ríkis, sveitarfélaga og fleiri. 

„Það er gríðarlega stór kerfisbreyting þegar við erum að skilgreina það að allir þeir aðilar sem að vinna með börn með einum eða öðrum hætti í þessu landi; hvort sem eru skólar, tómstundir, leikskólar, grunnskólar félagsþjónusta, heilbrigðiskerfi, dómskerfi, að allir þessir aðilar þurfi að vinna saman að því að loka götum sem eru að myndast í velferðarkerfinu. Takist það verkefni þá er þetta gríðarleg aðgerð, en þetta er stórt verkefni,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.

Með þessu er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða í stigskiptri þjónustu sem gefur yfirsýn og mynd af hvernig hægt sé að tryggja samfellda þjónustu við hæfi allra barna. Fyrsta stig er grunnþjónusta aðgengileg öllum börnum og fjölskyldum með einstaklingsbundnum og snemmtækum stuðningi. Annað stig er markvissari stuðningur og þriðja stigið er sérhæfðari stuðningur. Fjölskyldum verður tryggður tengiliður sem leiðbeinir og ef þörf er á sérhæfðari stuðningi til lengri tíma kemur málstjóri til aðstoðar. Ráðherra segir að með breytingunum sé reynt að girða fyrir að börn lendi á milli kerfa.

„Því miður er það svoleiðis í lífinu að það er aldrei hægt að tryggja það 100%, en við erum svo sannarlega að þétta netið á milli til þess að geta gripið fleiri börn, til að koma auga á fleiri börn og fjölskyldur sem þarfnast aukinnar þjónustu,“ segir Ásmundur Einar.

Félagsmálaráðuneytið lét gera mat á hagrænum og fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins, en kostnaður samfélagsins vegna ævilangra afleiðinga áfalla í barnæsku er talinn nema um 100 milljörðum á ári, samkvæmt mati Björns Brynjúlfs Björnssonar hagfræðings.

„Einstaklingur sem verður fyrir áföllum í barnæsku og nær sér ekki á beinu brautina, hann er margfalt líklegri til að glíma við alvarlega líkamlega og andlega sjúkdóma, hann er ólíklegri til að vera í vinnu, hann hefur lægri ævitekjur og þetta hefur neikvæð áhrif á fjárhag bæði ríkis og sveitarfélaganna.“

Björn Brynjúlfur segir þessa útreikninga og aðferðafræði hafa verið notaða í fjölda landa. 

„Okkar áætlun, miðað við reynslu nágrannaríkja, er að um 2.500 börn á ári verði fyrir áfalli og um 350 á ári séu ekki gripin, það er að segja nái ekki að vinna úr þeim og muni glíma við vandamál út ævina.“

Fyrstu árin mun kerfið kosta allt tvo milljarða á ári.  Ávinningurinn kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár og samkvæmt útreikningunum mun sparnaðurinn smám saman vega þyngra en útgjaldaukningin vegna bættrar þjónustu. Samkvæmt mati Björns Brynjúlfs mun hann síðar verða á pari við ávinninginn af Keflavíkurflugvelli.