
Yfir 150.000 enn heimilislaus eftir óveður í Hondúras
Báðir stormarnir báru með sér úrhellisrigningar, sem ollu mannskæðum aurskriðum, skyndiflóðum og gríðarmiklu tjóni á mannvirkjum á hamfarasvæðinu. Yfir 200 manns fórust í hamförunum, þar af 94 í Hondúras, samkvæmt opinberum tölum. Stjórnvöld þar í landi áætla að yfir 150.000 manns séu enn heimilislaus og meira og minna á vergangi eftir þessi gjörningaveður og búi við sára fátækt.
Margföld neyð meira en innviðir Hondúras ráða við
Neyðarskýli eru yfirfull og heilu stórfjölskyldurnar hírast í hrófatildrum sem hróflað hefur verið upp hvar sem því verður við komið, jafnvel í vegköntum. Aðgengi að hreinlætisaðstöðu, mat og læknishjálp er lítið sem ekkert og heilsu fólks fer hrakandi. Kórónaveirufaraldurinn gerir illt verra og BBC hefur eftir heilbrigðisyfirvöldum í Cortes-héraði, sem varð afar illa úti í óveðrunum, að brögð séu að því að fólk neiti að láta skima sig fyrir COVID-19 af ótta við að verða hrakið úr neyðarskýlum.
Yfir 300 vegir í Hondúras skemmdust verulega í hamförunum, 48 brýr eyðilögðust og 32 til viðbótar skemmdust. Þá er ótalinn sá fjöldi bygginga, rafmagns- og fjarskiptamastra og annarra mannvirkja sem skemmdust og eyðilögðust.
Hreinsunar- og uppbyggingarstörfin eftir fellibyljina, ásamt álaginu sem fylgir kórónaveirufaraldrinum, hafa reynst meiri og kostnaðarsamari en innviðir og efnahagur Hondúras ræður við með góðu móti. Það gæti því orðið talsverð bið á því að fólkið sem missti heimili sín í hamförunum sjái fyrir endann á harðindunum.