
Serbar og Svartfellingar reka sendiherra úr landi
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í Podgorica segir að brottvísun serbneska sendiherrans sé afleiðing „langvinnra og viðvarandi afskipta [Serba] af innanríkismálefnum Svartfjallalands. Nokkrum klukkustundum síðar tilkynntu stjórnvöld í Belgrað að þau hefðu svarað í sömu mynt og að sendiherra Svartfjallalands væri ekki lengur velkominn í Serbíu.
Klofin þjóð
Svartfellingar hafa löngum skipað sér í tvær fylkingar varðandi afstöðuna til sinna fornu félaga Serba og Rússa annars vegar, og svo Vestur-Evrópu, Evrópusambandsins og Nató hins vegar. Núverandi ríkisstjórn Lýðræðislega sósíalistaflokksins, með forsetann Milo Djukanović í brúnni, hefur verið meira og minna við stjórnvölinn í landinu síðustu áratugi og hallað sér æ meira til vesturs.
2017 fékk landið aðild að Nató, sem litið er á sem mikilvægt skref í áttina að Evrópusambandsaðild, sem er eitt helsta markmið stjórnarinnar.
Í kosningum í ágúst í sumar gerðist það hins vegar að Lýðræðisfylkingin, sem vill aukna samvinnu við Serba og Rússa, vann góðan sigur og er í þann mund að mynda meirihlutastjórn með flokkum á svipaðri línu. Ætla má að samskipti Svartfjallalans og Serbíu batni eftir stjórnarskiptin, en framtíð Evrópusambandsaðildar Svartfellinga verði öllu óvissari.