Argentínska blaðið Clarín heldur því fram að læknir Diego Maradona sé grunaður um manndráp af gáleysi eftir að knattspyrnugoðsögnin lést úr hjartáfalli á miðvikudaginn.
Samkvæmt frétt argentínska blaðsins hefur lögreglan gert húsleit á heimili og skrifstofu Leopoldo Luque sem var einkalæknir Maradona. Luque hafði meðhöndlað Maradona í kjölfar aðgerðar vegna heilablóðfalls sem Maradona fékk fyrr í mánuðinum.
Að sögn Clarín er verið að rannsaka Luque vegna manndráps af gáleysi en hann er grunaður um að hafa skilið Maradona eftir bjargarlausan. Húsleitin var gerð eftir að dætur Maradona kröfðust upplýsinga um hvaða lyf Maradona fékk frá Luque á síðustu mánuðum ævi sinnar.
Yfir 30 lögreglumenn tóku þátt í áhlaupinu í dag þar sem sjúkraskýrsla Maradona var meðal þess sem þeir leituðu að.