
Kastast í kekki milli Þórólfs og Kára
Vísir hefur fjallað um orðaskipti sóttvarnalæknis og forstjóra Íslenskrar efðagreiningar sem hafa verið býsna samstíga í kórónuveirufaraldrinum og farið fögrum orðum um hvor annan í fjölmiðlum.
Þórólfur var spurður út í ummæli Kára í sjónvarpsþættinum Víglínunni á Stöð 2 síðdegis þar sem hann ítrekaði að hann hefði aldrei sagt að takmörkunum yrði aflétt heldur að þær væru alltaf í sífelldri skoðun. Þá hefði hann alltaf sagt að fara yrði hægt í tilslakanir. „Það er ómaklegt af fóstbróður mínum í Covid-baráttunni að orða þetta svona,“ sagði Þórólfur.
Kári hefur nú birt opið bréf til Þórólfs á Facebook-síðu sinni þar sem hann segist hafa hrósað honum hástert í hvert sinn sem hann hafi fengið tækifæri til þess. Þeir hafi hins vegar verið ósammála áður í faraldrinum og hann þá látið sína skoðun í ljós.
Hann segist standa við þau orð að Þórólfi og teymi hans hafi orðið á í messunni þegar komi að því að hemja væntingar. „Þið hafið á köflum kiknað undan lönguninni til þess að flytja góðar fréttir, gleymt því að það eina sem er verra en vondar fréttir eru góðar fréttir sem standast ekki og leiða menn út í mýri.“
Þegar maður sé sóttvarnalæknir sé það hlutverk manns að tjá sig í samræmi við það „en ekki í samræmi við það sem maður heldur að fólki vilji heyra.“
Færslu Kára má lesa hér að neðan.