Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Erik Jensen felldi Kim Kielsen í formannskjöri Siumut

29.11.2020 - 21:22
Mynd af vefsíðu KNR, grænlenska ríkisútvarpsin, sem sýnir Erik Jensen og Kim Kielsen.
 Mynd: KNR-grænlenska ríkisútvarpið - KNR
Erik Jensen, þingmaður Siumut á grænlenska landsþinginu var í kvöld kjörinn formaður flokksins. Siumut fer með stjórnarforystu á Grænlandi. Jensen bar sigurorð af Kim Kielsen, sem verið hefur formaður jafnaðarmannaflokksins Siumut frá því 2014. Kielsen er formaður landsstjórnar Grænlands og ósigur hans í kvöld kom nokkuð á óvart.

Landsþing í Nuuk um helgina

Um 70 sátu landsþing Siumut og fékk Erik Jensen 39 atkvæði, Kielsen 32 og Vivian Motzfeldt, forseti þingsins, fékk 7 atkvæði. Hún náði kjöri sem varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen var einnig kjörin varaformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins. Inga Dóra er hálf-íslensk, foreldar hennar eru Benedikte Abelsdóttir og Guðmundur Þorsteinsson. Benedikte er fyrrverandi ráðherra í grænlensku stjórninni.

Jensen meðal þeirra sem lýstu vantrausti á Kielsen

Hinn nýkjörni formaður Siumut, Erik Jensen, var í hópi meirihluta þingmanna Siumut sem lýstu vantrausti á Kielsen í fyrra og kröfðust afsagnar hans. Jensen sagði í kvöld í viðtali við grænlenska ríkisútvarpið að hann vonaðist til að geta sameinað flokkinn.