Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn einu kosningasvikamálinu vísað frá dómi

epa08841613 Supporters of US President Donald J. Trump gather outside a public hearing on the president's baseless claims of voter fraud at a Wyndham hotel in Gettysburg, Pennsylvania, USA, 25 November 2020. Trump has continued to allege without evidence that he lost to president-elect Joe Biden due to voter irregularities.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Fjöldi fólks trúir fullyrðingum forsetans og hans nánustu samverkamanna um víðtæk kosningasvik, þrátt fyrir að hvorki hafi verið færð rök né sannanir fyrir neinu slíku.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Hæstiréttur Pennsylvaníuríkis vísaði í gær enn einu dómsmálinu frá, sem lögmenn Repúblikana hafa höfðað með það fyrir augum að fá úrslitum forsetakosninganna 3. nóvember hnekkt.

Í þessu máli kröfðust málshefjendur þess að öll póstatkvæði sem greidd voru í Pennsylvaníu skyldu ógilt, eða, að öðrum kosti, öll atkvæði sem greidd voru í ríkinu yrðu ógilt og ríkisþing Pennsylvaníu látið eftir að útnefna kjörmenn. Krafan byggðist á þeirri fullyrðingu að lög frá 2019, sem heimila öllum Pennsylvaníubúum að senda atkvæði sín í pósti standist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna.

„Ótrúleg“ krafa um að svipta kjósendur atkvæðarétti sínum

Málinu hafði áður verið vísað frá á neðri dómsstigum og dómararnir við hæstarétt Pennsylvaníu voru á einu máli um réttmæti frávísunarinnar. Lögin um póstkosninguna hefðu verið samþykkt fyrir rúmlega ári síðan og of seint að reyna að véfengja þau þegar kosningaúrslitin liggja nánast fyrir.

Þá sé krafan um að ógilda öll atkvæði og svipta þær 6,9 milljónir íbúa ríkisins sem greiddu atkvæði í forsetakosningunum þar með kosningarétti sínum hreinlega ótrúleg.

Eitt fjölmargra mála sem hefur verið vísað frá

Úrskurður laugardagsins er sá nýjasti af mörgum þar sem málatilbúnaði Trumps og hans stuðningsmanna um kosningasvik er vísað frá. Síðast á föstudag vísaði áfrýjunardómstóll í Fíladelfíu öðru máli frá, þar sem líka var reynt að fá úrslitin í Pennsylvaníu ógilt, á afar loðnum og óljósum forsendum.

Joe Biden fékk rúmlega 80.000 fleiri atkvæði en Trump í Pennsylvaníu og þar með alla 20 kjörmenn ríkisins. Hann sigraði Trump með ríflega 6 milljóna atkvæða mun á landsvísu og 306 kjörmönnum á móti 232.