Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bjargað úr hlíðum Breithorn en fær slysið ekki bætt

29.11.2020 - 15:57
epa02920432 Around 50 women affected by breast cancer and 50 attendants coming from 19 countries, climb on the top of the Breithorn mountain, 4164 m above sea level, in solidarity with women affected by breast cancer, in Zermatt, Switzerland, 17 September 2011. The group was guided by more than twenty professional mountaineers.  EPA/LAURENT GILLIERON
 Mynd: EPA - RÚV
Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum telur að íslenskur fjallagarpur eigi hvorki rétt á bótum úr kreditkortatryggingu sinni né vátryggingu vegna slyss á svissneska fjallinu Breithorn í apríl á síðasta ári. Kortafyrirtækið taldi slysið hafa verið utan alfaraleiðar og tryggingafélagið sagði tryggingu mannsins ekki ná til slysa í fjallaklifri.

Í tveimur úrskurðum nefndarinnar er slysinu lýst nokkuð vel.  Maðurinn var staddur á gönguleið í fjallinu Breithorn þegar hann fann fyrir mæði og óþægindum. Hann ákvað að snúa við fótgangandi í stað þess að renna sér niður fjallið á skíðum eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Þegar hann beygði sig til að laga mannbrodda undir skóm sínum vildi ekki betur til en svo að hann datt á hliðina og rann niður fjallshlíðina. Hann náði að stöðva sig með ísexi en mat leiðina niður of erfiða. Hann var því sóttur með þyrlu og komið undir læknishendur.

Maðurinn sóttist eftir að fá slysið bætt hjá bæði kortafyrirtæki sínu og tryggingafélagi. Deilan við kortafyrirtækið snerist um hvort slysið hefði átt sér stað utan alfaraleiðar.   Maðurinn taldi svo ekki vera. Hann hefði verið á þekktu skíðasvæði þar sem fólk væri flutt upp með kláfum auk þess sem hægt væri að ganga upp á tindinn. Leiðin sem hann hefði valið væri sú auðveldasta  og mest nýtta á fjallinu. Ljóst væri að slysið hefði því verið innan alfaraleiðar.

Kortafyrirtækið var ósammála og benti á að sérstakan búnað þyrfti og þekkingu í fjallamennsku til að fara leiðina auk þess sem mælt væri með að leiðsögumaður væri með í för.  Breithorn væri rúmlega fjögur þúsund metra hátt, leiðin upp á tindinn væri í 35 gráðu halla og hlíðin þar sem maðurinn hefði fallið væri í 3.900 til 4.000 metra hæð.  Áður en tindurinn væri klifinn þyrfti að ganga yfir hásléttu jökulsins. Úrskurðarnefndin tók undir með kortafyrirtækinu um að slysið hefði átt sér stað utan alfaraleiðar.  Gangan væri krefjandi í mikilli hæð og hentaði einungis vönu fjallgöngufólki.

Maðurinn reyndi einnig að fá slysið bætt hjá tryggingafélagi sínu. Þar snerist deilan um hvort maðurinn hefði verið í fjallaklifri eða ekki. Maðurinn sagði að svo hefði ekki verið. Ekki væri óeðlilegt að menn væru vel búnir fyrir göngu upp á rúmlega fjögur þúsund metra hátt fjall. Þá hafi útbúnaðurinn verið áskilinn í leiðbeiningum söluaðila ferðarinnar. Það yrði þó seint talið til skilgreiningar á fjallaklifri að menn væru með mannbrodda á skóm sínum og ísexi.

Tryggingafélagið var ósammála og taldi einmitt að búnaðurinn sem maðurinn var með sannaði að hann hefði verið í fjallaklifri. Sú staðreynd að hann hefði haldið á exinni væri besta sönnun þess. Þótt hann hefði verið gangandi þegar slysið var en ekki klifrandi hefðu engin gögn verið lögð fram að ferð hans á fjallið hefði verið eitthvað annað en fjallaklifur. Úrskurðarnefndin féllst á það og taldi manninn ekki eiga rétt á bótum úr fjölskyldutryggingu sinni

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV