Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Yngsta kynslóðin mun bera þyngstu byrðarnar“

Mynd með færslu
 Mynd: BHM
Fyllsta ástæða er til þess að hafa áhyggjur af því að langtímaatvinnuleysi festi sig í sessi hér á landi. Unga fólkið er sá hópur sem kemur til með að bera þyngstu byrðarnar. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, en hún var gestur Vikulokanna á Rás eitt í morgun. Hún segir að margt sé ólíkt með núverandi stöðu á vinnumarkaði og var eftir hrun og kallar eftir opinberu fjárfestingarátaki.

„Það er þannig hjá okkur, sem förum fyrir stéttarfélögum háskólamenntaðra, að þar er að festa sig í sessi langtímaatvinnuleysi sem var ekki til fyrir rúmlega tíu árum. Þá var um það bil 10% þeirra sem lentu í atvinnuleysi með háskólamenntun, nú eru það 25%,“ segir Þórunn.

„Við höfum miklar áhyggjur hjá BHM að við séum að sigla inn í langtímaatvinnuleysi sem við höfum í rauninni ekki mikla reynslu af hér á landi. Það er yngsta kynslóðin, sem er að ljúka námi hvort sem það er í háskóla eða annars staðar og er að koma út á vinnumarkaðinn sem mun bera þyngstu byrðarnar í þessari kreppu og eftir þessa kreppu. Það að koma út á vinnumarkaðinn í kreppu lækkar ævitekjur þínar. Það hefur áhrif á allt líf þitt.“

Þórunn segir að nýrrar nálgunar sé þörf til að finna leiðir út úr þessu ástandi.

„Við stöndum frammi fyrir því hér á landi að vera með allt of einleitt atvinnulíf. Við stólum aftur og aftur á útflutningsgreinar, núna síðast var það ferðaþjónustan, sem byggja á náttúruauðlindanýtingu og geta hrunið á einum degi. Einu sinni var það loðnubrestur, síldin hvarf.“

Þórunn sagði að frá sjónarhóli þeirra sem væru að berjast fyrir kjörum og réttindum háskólamenntaðs fólks á vinnumarkaði þyrfti að ráðast í opinbert fjárfestingaátak. „Líka í einkageiranum þar sem verið er að fjárfesta í atvinnu- og nýsköpun og mannauði. Það er eina leiðin út úr þessari kreppu á einhvern annan hátt en við höfum gert hingað til.“