Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vestfirðingar beðnir um að fresta ferðalögum eftir smit

Eyri, Heilsugæsla, HVEST, Ísafjörður, Öldrunarheimili, Rúv myndir, Sjúkrahús
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
20 eru í sóttkví eftir að einn greindist með kórónuveirusmit í gærkvöld. Sá hafði verið í Reykjavík fyrir viku síðan. Meirihluti þeirra sem eru í sóttkví eru á norðanverðum Vestfjörðum en sex eru sunnan Dýrafjarðarganga. Allir fóru í sýnatöku á Ísafirði og Patreksfirði í morgun. Smitið telst fullrakið.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þar er haft eftir Súsönnu Björg Ástvaldsdóttur, umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum, að þetta sé bakslag í baráttunni við farsóttina. Engin smit hafi verið á Vestfjörðum síðustu daga og örfáir í sóttkví. 

Súsanna segir í færslunni að sá sem greindist með veiruna hafi passað sig mjög vel í ferð sinni til Reykjavíkur. Hann hafi hitt fáa og haldið sig frá áhættustöðum. „Samt smitaðist viðkomandi.“ Hún biðlar því til Vestfirðinga að fresta öllum ferðalögum eins og hægt er „svo við missum ekki tökin á faraldrinum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV