Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mega fara í messur og mótmæli en haldi sig annars heima

28.11.2020 - 06:34
epa08842544 Hundreds of homeless people wait in line to receive Thanksgiving food and basic necessities at Los Angeles Mission in Los Angeles, California, USA, 25 November 2020. Due to the coronavirus pandemic, the Los Angeles Mission celebrates Thanksgiving by distributing meals and basic necessities to the homeless in lieu of its annual outdoor dining event. The number of homeless people has increased tremendously as the phenomenon seemed to be aggravated by the pandemic.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
Borgaryfirvöld í Los Angeles hafa gefið út fyrirmæli um að fólk haldi sig heima, vegna fjölgandi COVID-19 smita. Einn galli við þá tilskipun er sá, að tugir þúsunda borgarbúa eru heimilislausir, eins og fólkið sem hér sækir sér matargjafir góðgerðasamtaka á nýafstaðinni þakkargjörðarhátíð.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Los Angeles tilkynntu í gær strangar fjöldatakmarkanir vegna mikillar fjölgunar kórónaveirusmita þar í borg að undanförnu. Blátt bann er lagt við því að fólk frá ólíkum heimilum safnist saman yfirhöfuð, nema til að taka þátt í trúarathöfnum eða mótmælaaðgerðum.

„Öruggari heima“

Nýju reglurnar, sem hafa yfirskriftina „öruggari heima," taka gildi á mánudag og gilda í rúmar þrjár vikur hið minnsta, eða til 20. desember, samkvæmt tilkynningu heilbrigðisyfirvalda í þessari næst-fjölmennustu borg Bandaríkjanna.

„Í nýju reglunum [...] er íbúum ráðlagt að halda sig eins mikið heima hjá sér og kostur er," segir í tilkynningunni. „Allar almennings- og einkasamkomur með öðrum en eigin heimilisfólki eru bannaðar, fyrir utan trúarsamkomur og mótmæli, sem eru stjórnarskrárvarinn réttur fólks."

Hæstiréttur bannaði bann við trúarsamkomum og mótmælum

Slíkar fjöldasamkomur voru raunar bannaðar víða þar til fyrir skemmstu, með vísan til smithættu og almannahagsmuna. Það bann var víða kært, og rötuðu þau kærumál alla leið til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Þar komust fimm af níu dómurum réttarins að þeirri niðurstöðu að bann við trúarsamkomum - og opinberum mótmælafundum - bryti í bága við stjórnarskrá landsins, og að rétturinn til að halda og taka þátt í slíkum samkomum trompaði sóttvarna- og lýðheilsusjónarmið, líka í mannskæðum heimsfaraldri.

Yfir 13 milljónir Bandaríkjamanna hafa smitast af COVID-19 og nær 265.000 dáið úr sjúkdómnum vestra, þar sem farsóttin hefur geisað af miklum þunga síðustu vikur. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV