Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Eþíópíuher fullyrðir að sóknin inn í Tigray gangi vel

28.11.2020 - 04:55
epa08844224 (FILE) The Ethiopian National Defence conducts exercises in the inaugural event of Sheger park during a military parade in Addis Ababa, Ethiopia 10 September 2020 (issued 26 November 2020). The prime minister of Ethiopia Abiy Ahmed, on 26 November 2020. ordered the army to move on the embattled Tigray regional capital after a 72 hour ultimatum to surrender had expired. Ethiopia’s military intervention comes after Tigray People's Liberation Front forces allegedly attacked an army base on 03 November 2020 sparking three weeks of unrest.  EPA-EFE/STR
Eþíópíuher sýnir mátt sinn og megin á hersýningu í Addis Ababa 10. september síðastliðinn. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirstjórn Eþíópíuhers fulluyrðir að herinn hafi náð nokkrum bæjum í Tigray-héraði á sitt vald síðan hann hóf sókn sína inn í héraðið á fimmtudag. Hassan Ibrahim, undirhershöfðingi, segir herinn hafa tryggt yfirráð yfir bænum Wikro, norður af héraðshöfuðborginni Mekelle, og nokkrum minni bæjum að auki. Markmiðið er að ná stjórn Mekelle og héraðsins alls úr höndum Þjóðfrelsisfylkingar Tigray-héraðs (TPFL) og vopnaðra sveita sem fylgja henni að málum.

Um hálf milljón manna býr í Mekelle. Stjórnvöld í Addis Ababa, með forsætisráðherrann og friðarverðlaunahafann Abiy Ahmend fremstan í flokki, hvöttu borgarbúa til að halda sig heima þegar „lokasókn“ hersins að borginni byrjaði. Sama dag lofaði Ahmed erindrekum Afríkubandalagsins, sem komnir voru til að reyna að stilla til friðar, að herinn myndi þyrma óbreyttum borgurum í aðgerðum sínum. 

Erfitt að sannreyna fréttir frá átakasvæðinu

Óstaðfestar fregnir herma að hundruð hafi fallið síðan herinn lagði upp í þessa lokasókn sína gegn TPFL-liðum, og tugir þúsunda flúið heimili sín, flest  yfir landamærin til Súdan. Nú hefur stjórnarherinn hert eftirlit á mörkum Tigray-héraðs og Súdan til að stöðva landflóttann.

Erfitt er að sannreyna nokkrar fréttir frá átakasvæðinu, þar sem búið er að rjúfa nær allt fjarskiptasamband við Tigray-hérað, þar sem allt í senn síma-, farsíma- og netsamband liggur að mestu niðri. 

 

Átök tveggja valdablokka 

Stríðið í Tigray hófst með hvelli 4. nóvember. Segja má að kveikjan hafi verið kosningar í héraðinu í ágúst, sem fóru fram án samþykkir yfirvalda í Eþíópíu. Forsætisráðherrann Abiy Ahmed sagði þær alvarlegt brot á stjórnarskrá landsins og leysti síðan upp héraðsþing Tigray, sem er eitt af tíu sjálfsstjórnarhéraða í landinu. Eins og algengt er á slíkum svæðum starfa þar hópar aðskilnaðarsinna sem krefjast sjálfstæðis frá landinu. Um sex prósent hinna 110 milljóna íbúa Eþíópíu búa í Tigray. 

Tigray hérað hefur lengi verið valdamikið og stjórnarflokkurinn þar, Þjóðfrelsisfylking Tigrayhéraðs, hefur verið valdaflokkur í ríkisstjórn landsins um áratugaskeið og hrökklaðist ekki frá völdum fyrr en 2018. Þá náði bandalag stjórnarandstöðu- og umbótaflokka völdum, undir forystu Ahmeds. Eitt af helstu stefnumálum hans var að semja um frið við nágrannaríkið Erítreu, eftir margra ára stríðsrekstur, og uppskar hann friðarverðlaun Nóbels fyrir vikið.

Ófriður hefur kraumað í Tigray-héraði allt frá valdaskiptunum. Þau mögnuðust í haust, þegar Þjóðfrelsisfylkingin í Tigray ákvað að halda kosningar í héraðinu og settu aukið sjálfstæði þess á oddinn í kosningabaráttunni. Ríkisstjórnin í Addis Ababa lýsti kosningarnar ólöglegar, en héraðsstjórnin svaraði því þá til, að Tigray lyti ekki lengur eþíópísku stjórninni. 

 

Öflugur her Þjóðfrelsisfylkingarinnar

Eþíópísk stjórnvöld ákváðu þá að skera niður fjárveitingar til héraðsins, sem heimamenn túlkuðu sem stríðsyfirlýsingu. Og allt sprakk í loft upp. Ríkisstjórnin sagði stjórnvöld í Tigray hafa farið yfir „rauða línu” og réðust svo inn í herstöð í héraðinu. 

Skotbardagar, loftárásir og annar ömurlegur stríðsrekstur fylgdi í kjölfarið. Samkvæmt Al Jazeera hefur Tigray hérað yfir að ráða um 250.000 hermönnum og talið er að stríðið gæti staðið vikum og jafnvel mánuðum saman. Þá eru enn ótaldar þær afleiðingar sem gætu fylgt ef átökin berast út fyrir landsteinana, sem er nú þegar orðin raunin með flugskeytaárásum Tigray-manna á skotmörk í Eritreu.