
Ástralir búa sig undir fyrstu hitabylgju sumarsins
Í skýrslu Alþjóða náttúruverndarsjóðsins um elda síðasta sumars segir að erfitt sé „að hugsa sér nokkurn annan atburð í nútímasögunni, sem banað hefur svo mörgum dýrum."
Rigningasamt vor en þurr og heitur nóvember
Ástralska vorið var rigningasamt en nóvember hefur verið með þurrasta og hlýjasta móti, samkvæmt áströlsku veðurstofunni. Þessi fyrsta hitabylgja ástralska sumarsins skellur á suðausturhluta landsins um helgina. Spáð er um og yfir 40 stiga hita í Sydney og nágrenni, yfirvöld hvetja fólk til að halda sig innandyra og slökkvilið er í viðbragðsstöðu.
Ástralska sumarið telst vara frá nóvember til mars, og eru janúar og febrúar að jafnaði hlýjastir. Gróðureldatímabilið hefst þó iðulega strax í ágúst og hitabylgjur í nóvember eru ekki óalgengar og æ algengari með hlýnandi loftslagi.