Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ástralir búa sig undir fyrstu hitabylgju sumarsins

epa08640607 A woman walks in view of the city skyline in Sydney, Australia, 02 September 2020. Australia's economy shrank 7.0 percent in the June quarter, confirming a recession for the first time since the early 1990s.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: epa
Ástralir búa sig nú undir fyrstu hitabylgju sumarsins, með hita um og yfir 40 gráðum, þurrum og hlýjum vindum og þar með kjöraðstæðum fyrir gróðurelda. Skógar- og gróðureldar síðasta sumars eru Áströlum enn í fersku minni, enda þeir verstu og víðfeðmustu sem sögur fara af þar í landi. 33 fórust í eldunum, sem sviðu um 190.000 ferkílómetra gróðurlendis frá september 2019 til mars 2020, og áætlað er að allt að þrír milljarðar dýra af öllu tagi hafi drepist í eða vegna eldanna.

Í skýrslu Alþjóða náttúruverndarsjóðsins um elda síðasta sumars segir að erfitt sé „að hugsa sér nokkurn annan atburð í nútímasögunni, sem banað hefur svo mörgum dýrum."

Rigningasamt vor en þurr og heitur nóvember

Ástralska vorið var rigningasamt en nóvember hefur verið með þurrasta og hlýjasta móti, samkvæmt áströlsku veðurstofunni. Þessi fyrsta hitabylgja ástralska sumarsins skellur á suðausturhluta landsins um helgina. Spáð er um og yfir 40 stiga hita í Sydney og nágrenni, yfirvöld hvetja fólk til að halda sig innandyra og slökkvilið er í viðbragðsstöðu. 

Ástralska sumarið telst vara frá nóvember til mars, og eru janúar og febrúar að jafnaði hlýjastir. Gróðureldatímabilið hefst þó iðulega strax í ágúst og hitabylgjur í nóvember eru ekki óalgengar og æ algengari með hlýnandi loftslagi.