
Yfir 300 Tyrkir til viðbótar dæmdir í lífstíðarfangelsi
Samtals voru 475 manns ákærð í þessu tiltekna máli, einu af nær 300 sem höfðuð hafa verið gegn hópum fólks sem grunað er um aðild að valdaránstirauninni. 365 þeirra voru í haldi þegar dómur var upp kveðinn og 337 fengu lífstíðardóm. Þar af var 291 dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn, samkvæmt tyrknesku ríkisfréttastofunni Anadolu, en 70 voru sýknuð.
Fjórir dæmdir í 79-falt lífstíðarfangelsi
Í þessum stóra hópi eru bæði óbreyttir hermenn, tugir orrustuflugmanna og mis-háttsettir herforingjar. Tíu óbreyttir borgarar eru í hópi hinna dæmdu, þar á meðal fjórir trúarleiðtogar, sem sagðir eru á meðal helstu skipuleggjenda valdaránstilraunarinnar.
Þeir voru hver um sig dæmdir í 79-falt lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir tilraun til að ráða Tyrklandsforseta af dögum, morð, og tilraun til valdaráns. Allir eru þeir sagðir hafa tengsl við klerkinn Gethulla Gülen, fyrrum bandamann Erdogans Tyrklandsforseta en nú höfuðfjanda, sem er í útlegð í Bandaríkjunum.
Víðtækar pólitískar hreinsanir sem standa enn
Yfir 250 óbreyttir borgarar týndu lífi þegar hópur uppreisnarmanna úr röðum hersins beitti herþotum, þyrlum og skriðdrekum í tilraun til að ræna völdum í landinu. Sú tilraun rann út í sandinn og í framhaldinu réðist stjórn Receps Tayyips Erdogans, Tyrklandsforseta, í víðtækar pólitískar hreinsanir, sem standa enn.
Yfir 290.000 manns hafa verið handtekin síðustu fjögur ár vegna meintra tengsla þeirra við útlagaklerkinn Gülen. Anadolu-fréttastofan hefur eftir innanríkisráðherranum Suleyman Soylu að þar af hafi nær 100.000 verið fangelsuð og bíði réttarhalda.
Yfir 150.000 opinberir starfsmenn hafa verið reknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar, þar á meðal fjöldi dómara og kennara á öllum skólastigum. Þá hafa um 20.000 manns verið rekin úr hernum og yfir 2.500 verið dæmd til lífstíðarfangavistar.