Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tíu hópar fá forgang að bólusetningu

27.11.2020 - 17:55
epa08814067 An undated handout picture made available by the German pharmaceutical company Biontec shows the dosing of BNT162b2, the mRNA-based vaccine candidate against COVID-19, during the clinical test. Pfizer and Biontech SE  announced on 11 November 2020 that they have reached an agreement with the European Commission to supply 200 million doses of their investigational BNT162b2 mRNA-based vaccine candidate against COVID-19 to European Union (EU) Member States, with an option for the European Commission to request an additional 100 million doses.  EPA-EFE/BIONTECH SE / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19. Þar eru skilgreindir tíu forgangshópar og í mestum forgangi er heilbrigðisstarfsfólk og þá koma íbúar hjúkrunar- og dvalarheimila og öldrunardeilda sjúkrahúsa.

Í reglugerðinni segir að við smíði hennar hafi verið horft til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðis­málastofnunarinnar og sjónarmiða sem fram hafa komið í sambærilegri vinnu hjá nágrannaþjóðum.

Í reglugerðinni eru skilgreindir tíu forgangshópar.

Lögð verður sérstök áhersla á að bólusetja fyrst þá einstaklinga sem eru í framlínunni í baráttunni við sjúkdóminn. Þetta á við um heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa, á COVID-19 göngudeild og legudeildum fyrir sjúklinga sem smitast hafa af COVID-19, heilbrigðisstarfsmenn sem framkvæma sýnatökur vegna gruns um COVID-19 og starfsfólk hjúkrunar- og dvalarheimila.

Bólusetning einstaklinga sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa verður einnig í miklum forgangi. Í þessum fimm hópum sem eru í mestum forgangi eru rúmlega 20.000 einstaklingar.

Í sjötta hópnum eru þeir sem eru 60 ára og eldri. Í sjöunda hópnum eru þeir sem eru með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, í áttunda hópnum er starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu.

Í níunda hópnum eru einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna og loks eru í tíunda hópnum allir aðrir sem óska bólusetningar, eftir því sem sóttvarnalæknir ákveður.

Ekki er gert ráð fyrir í reglugerðinni að börnum fæddum 2006 og síðar verði boðin bólusetning gegn COVID-19 nema þau hafi undirliggjandi langvinna sjúkdóma og séu í sérstökum áhættuhópi.