Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Telja ekki tímabært að afnema „bleika skattinn“

27.11.2020 - 07:33
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur ekki tímabært að fella niður virðisaukaskatt af tíðavörum. Þetta kemur fram í áliti meiri hlutans um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Breytingin krefjist ítarlegri skoðunar.

Í álitinu segir að nefndinni hafi borist umsögn þar sem skorað var á stjórnvöld að fella niður virðisaukaskatt af tíðavörum og tryggja að tíðavörur yrðu aðgengilegar í grunn- og framhaldsskólum. Stúlkur þyrftu á vörunum að halda frá unga aldri, áður en þær væru farnar að afla sér tekna. 

Þá segir að meiri hluti nefndarinnar hafi skilning á þeim sjónarmiðum sem koma fram í umsögninni og hvetji til þess að þau verði höfð til hliðsjónar við gerð rekstraráætlana grunn- og framhaldsskóla með það fyrir augum að nemendur hafi greitt aðgengi að tíðavörum í skólum. 

Hann telji hins vegar að það krefjist ítarlegri skoðunar hvort unnt sé að undanþiggja tíðavörur virðisaukaskatti. Í álitinu bendir meiri hlutinn á að með lögum nr. 67/2019, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní 2019, voru tíðavörur og getnaðarvarnir færðar í lægra þrep virðisaukaskatts.

Þá er vísað til álits meiri hlutans um frumvarpið frá þeim tíma, sem síðar varð að lögum: „Til umræðu kom hvort tilefni væri til að fella virðisaukaskatt af þeim vörum sem frumvarpið varðar niður með öllu. Þar sem ekki hefur tíðkast að undanþiggja neysluvörur virðisaukaskatti með öllu telur nefndin að slík breyting krefðist ítarlegri skoðunar.“

Í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson og Bryndís Haraldsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV