Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Plastpokar bannaðir í þýskum verslunum frá 2022

27.11.2020 - 02:41
epa01183911 Free supermarket plastic bags outside a supermarket in London, Britain, 27 November 2007. London councils want free plastic bags to be banned. They want shops to sell more environmentally friendly reusable bags instead. An estimated 13bn bags are issued to shoppers annually in the UK and 4bn end up in landfill sites. London Councils have approved a private Bill aimed at encouraging alternatives to plastic bags following a consultation in which 90 per cent of people called for action and 60 per cent wanted an outright ban.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: epa
Plastpokabann blasir við viðskiptavinum þýskra stórmarkaða og annarra verslana eftir að þýska þingið samþykkti löggjöf þar að lútandi í gær. Bann við sölu og dreifingu einnota innkaupapoka úr plasti í þýskum verslunum tekur gildi 1. janúar 2022.

„Tákngervingur auðlindasóunar“

„Plastpokinn er tákngervingur auðlindasóunar," segir þýski umhverfisráðherrann, Svenja Schulze, sem beitti sér mjög fyrir plastpokabanninu. Ráðleggur hún neytendum að grípa frekar til innkaupanets eða taupoka. Plastpokabannið nær þó ekki yfir litlu, þunnu pokana, sem gjarnan má finna í ávaxta- og grænmetisdeildum stórmarkaða.

Gagnslaus skrautfjöður og ólögmætt inngrip á markaði

Stjórnarandstaðan lætur sér fátt um bannið finnast. Þingmenn Græningja og vinstriflokksins Die Linke segja það gagnslausa skrautfjöður og Bettina Hoffmann, helsti talsmaður Græningja í umhverfis- og sjálfbærnimálum, segir það aðeins „dropa í hafið."

Þingmenn hægriflokkanna í stjórnarandstöðunni, AfD og FDP, greiddu atkvæði gegn banninu og sögðu það fela í sér óréttmætt inngrip á markaði án sannanlegs ávinnings fyrir umhverfið.