Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hugsanlega bólusett gegn COVID í stórum skemmum

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að byrjað sé að undirbúa hvernig staðið verður að bólusetningu gegn Covid-19. Til greina komi að leigja stórar skemmur til að auðvelda verkið. Ljóst sé að áhersla verði lögð á að bólusetja aldraða.

Undirbúningur hafinn

Óvíst er hvenær bóluefni gegn pestinni kemur hingað til lands. Hins vegar er ljóst að það mun að stærstum hluta verða í verkahring heilsugæslustöðva um allt land að sjá um sjálfa bólusetninguna. Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að undirbúningur sé þegar hafinn.

„Við erum farin að skipuleggja mjög vel hvernig við ætlum að gera þetta. Það eru mismunandi möguleikar. Það fer eftir því hvaða bóluefni við fáum. Ef við fáum þetta viðkvæma bóluefni þá þurfum við að vinna með ákveðnum hætti. Ef við fáum efni sem þolir meira, betur flutning og geymslu þá höfum við annan hátt á. Við erum alveg tilbúin í þetta og erum að undirbúa þetta núna af alvöru,“ segir Óskar.

Kannski betra að gera þetta í stórum skemmum

En hvar mun bólusetningin fara fram? Á sjálfum heilsugæslustöðvunum eða þarf að leigja skemmur eða stærra húsnæði?

„Ef að líkum lætur þá bendir til þess að við verðum að gera hvoru tveggja. Annars vegar að bólusetja ákveðna hópa á stöðvunum eða fara í stærri skemmur. Við höfum möguleika á hvorri lausninni sem er. Það getur vel verið að það sé betra að gera þetta í stórum skemmum. Sérstaklega vegna þess að vandamálið okkar er að fólk þarf að bíða í 15 til 20 mínútur eftir bólusetninguna inni á stöðvunum þar sem það er bólusett. Það getur farið svo að það sé sniðugt að hafa mjög stórt húsnæði, segir Óskar. Hann bendir þó að að í raun rúmist mjög margir inni á hverri heilsugæslustöð. „Ef við erum með 30 herbergja heilsugæslustöð og getum haft þrjá til fjóra í hverju herbergi þá getum við komið  hundrað manns fyrir í einu. Þannig að við gætum bólusett kannski 200 manns á klukkutíma og 2000 þúsund manns á einum degi.“

Fólk þarf að bíða eftir að það er sprautað til að sjá hver viðbrögð þess eru við bólusetningunni. 

epa08827073 A medical worker injects an anti influenza vaccine to patient in the pro-Russian militants controlled city of Donetsk, Ukraine, 18 November 2020. Ukraine faces a deficiency of the vaccine from flu season amid coronavirus COVID-19 pandemic as local media report. As many as 12,496 new cases of COVID-19 were confirmed in Ukraine in the past day as of the morning of November 18. The World Health Organization (WHO) predicts that Ukraine will be able to receive the first batch of a successfully tested and registered vaccine against COVID-19 in the second quarter of 2021.  EPA-EFE/DAVE MUSTAINE
 Mynd: EPA
Þetta bíður okkar!

270 þúsund bólusett?

Óskar segir að verkefnið fram undan sé nokkuð stórt því stefnt sé að því að þetta gangi hratt fyrir sig. Þegar svínaflensufaraldurinn gekk yfir voru talsvert margir bólusettir. Hann segir að reynslan sé því fyrir hendi.

Það hefur ekki verið upplýst hve marga stendur til að bólusetja. Hins vegar er stefnt að því að keyptir verði 5 til 600 þúsund skammtar af bóluefni. Spegillinn hefur heyrt að til standi að bólusetja um 270 þúsund manns sem væru þá 75% þjóðarinnar. Þá er ljóst, öfugt við svínaflensuna, að ekki verður lögð áhersla á að bólusetja börn. Óskar segir að þetta fari eftir því hve mikið af efni berist til landsins. Mjög  gott sé ef 70 til 80% þjóðarinnar fá sprautu. Og fólk verður sprautað tvisvar sinnum til að ná betri virkni. En hvað líður langur tími á milli?

„Það er allt frá tveimur upp í svona fjórar vikur sem ég hef heyrt um þau bóluefni sem núna er búið að sækja um markaðsleyfi fyrir.“

Byrja ofan frá í aldri

Flestar þjóðir eru nú að meta hverjir fá fyrstir bóluefni eða hvernig forgangsröðunin verður. Hér hefur listi yfir forgangshópa ekki verið gefinn út. Hins vegar er ljóst að í forgangi verða heilbrigðisstarfsfólk, aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Í Noregi er áætlað um 1,3 milljónir Norðmanna tilheyri þessum áhættuhópum eða um 24% þjóðarinnar. Það svarar til þess að um 87 þúsund manns hér á landi tilheyri þessum hópi. En veit Óskar hvernig forgangslistinn mun líta út?

„Ég hef fengið þær upplýsingar að þetta verði gert með mjög nákvæmum hætti og hafa þetta eins skýrt og hægt er. Það kemur væntanlega reglugerð eða tilmæli frá sóttvarnalækni. Það sem er sameiginlegar niðurstöðu þeirra sem hafa verið að lýsa skoðunum sínum á þess er að það er aldurinn sem skiptir máli. Að byrja ofan frá í aldri og færa sig niður á við. Það er það sem er alveg augljóst,“ segir Óskar. Jafnvel verði miðað við 60 ára og eldri.

Mynd með færslu
 Mynd: skoli.eu
Tilkynnt í síma um bólusetningu

Væntanlega ókeypis

En hvernig fær fólk tilkynningu um að koma í sprautu? Óskar segir að líklega fái það tilkynningu um það í síma.

„Það er stefnt að því og vonandi gengur það eftir að fólk fái einfaldlega strikamerki í símann sinn með skilaboðum um hvar það á að mæta. Það er þá farið eftir sjúkraskrárkerfinu og það er farið eftir því hvað vinnuveitendur gefa upp. Kannski ef við segjum starfsmenn Landspítalans þá er það fremur einfalt.“

 En hver borgar? Verður fólk láti borga fyrir bólusetninguna?

„Þetta er ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins en væntanlega verður fólk ekki látið borga. Ég held að þetta hljóti að vera ókeypis,“ segir Óskar Reykdalsson.