Undirbúningur hafinn
Óvíst er hvenær bóluefni gegn pestinni kemur hingað til lands. Hins vegar er ljóst að það mun að stærstum hluta verða í verkahring heilsugæslustöðva um allt land að sjá um sjálfa bólusetninguna. Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að undirbúningur sé þegar hafinn.
„Við erum farin að skipuleggja mjög vel hvernig við ætlum að gera þetta. Það eru mismunandi möguleikar. Það fer eftir því hvaða bóluefni við fáum. Ef við fáum þetta viðkvæma bóluefni þá þurfum við að vinna með ákveðnum hætti. Ef við fáum efni sem þolir meira, betur flutning og geymslu þá höfum við annan hátt á. Við erum alveg tilbúin í þetta og erum að undirbúa þetta núna af alvöru,“ segir Óskar.
Kannski betra að gera þetta í stórum skemmum
En hvar mun bólusetningin fara fram? Á sjálfum heilsugæslustöðvunum eða þarf að leigja skemmur eða stærra húsnæði?
„Ef að líkum lætur þá bendir til þess að við verðum að gera hvoru tveggja. Annars vegar að bólusetja ákveðna hópa á stöðvunum eða fara í stærri skemmur. Við höfum möguleika á hvorri lausninni sem er. Það getur vel verið að það sé betra að gera þetta í stórum skemmum. Sérstaklega vegna þess að vandamálið okkar er að fólk þarf að bíða í 15 til 20 mínútur eftir bólusetninguna inni á stöðvunum þar sem það er bólusett. Það getur farið svo að það sé sniðugt að hafa mjög stórt húsnæði, segir Óskar. Hann bendir þó að að í raun rúmist mjög margir inni á hverri heilsugæslustöð. „Ef við erum með 30 herbergja heilsugæslustöð og getum haft þrjá til fjóra í hverju herbergi þá getum við komið hundrað manns fyrir í einu. Þannig að við gætum bólusett kannski 200 manns á klukkutíma og 2000 þúsund manns á einum degi.“
Fólk þarf að bíða eftir að það er sprautað til að sjá hver viðbrögð þess eru við bólusetningunni.