Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugvirkjar furða sig á samráðsleysi stjórnvalda

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni furða sig á því að stjórnvöld hafi ekki haft samband við þá áður en þau samþykktu að setja lög á yfirstandandi verkfall. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir í samtali við fréttastofu að ráðherra hafi ekki á nokkru stigi málsins haft samband við félagið.

„Sem er alveg nýtt þegar deilur af þessum toga hafa átt sér stað, þá hafa ráðherrar sett sig í samband og fengið fullan skilning á málinu og tekið svo afstöðu,“ segir hann.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra greindi frá því fyrr í dag að ríkisstjórnin hefði samþykkt að setja lög á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Verkfall hefur staðið yfir frá 5. nóvember og nú hefur engin þyrla Gæslunnar verið tiltæk í tvo daga. 

Telja stjórnvöld eiga að kynna sér málið betur

Guðmundur segir það koma félaginu á óvart að ríkisstjórnin hafi ákveðið að setja lög á verkfallið án þess að frekara samráð hafi átt sér stað. „Það kemur okkur á óvart að það séu ekki skoðaðar allar hliðar málsins. Ríkisstjórnin, sem virðist einhuga um þetta mál, hefði svo sannarlega átt að kynna sér það betur,“ segir hann. 

Flugvirkjar telji eina markmið stjórnvalda vera að slíta tengingu við þann samningsgrunn sem flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa við aðra samninga Flugvirkjafélagsins.

Árangurslausar kjaraviðræður að baki

Guðmundur segir að samninganefnd flugvirkja hafi í gær lagt fram einfalda tillögu að þriggja ára samningi með tengingu við aðalkjarasamning Flugvirkjafélagsins en að tillögunni hafi verið hafnað af hálfu ríkisins. 

Þá hefur verið greint frá því að flugvirkjar hafi hafnað tillögu ríkissáttasemjara um að núgildandi samningur yrði framlengdur fram til ársloka 2021, með þeirri tengingu við aðalkjarasamninginn sem nú er í gildi. „Það er okkar mat að samninganefnd ríkisins hafi einnig haft það að leiðarljósi að slíta tengingu strax að ári ef innanhússtillaga ríkissátta semjara hefði orðið að veruleika, því buðum við meiri festu með þriggja ára samning,“ segir Guðmundur.