Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fær rykkorn í augun yfir öllu þakklætinu

Mynd: Matthías Már Magnússon / .

Fær rykkorn í augun yfir öllu þakklætinu

27.11.2020 - 11:50

Höfundar

„Í gær fékk ég símtal þar sem mér var þakkað frá dýpstu hjartarótum fyrir að létta fólki stundir,“ segir nokkuð meyr Helgi Björnsson sem ætlar að bjóða til lokaveislu heim í stofu í beinu streymi annað kvöld. Það verður síðasti þátturinn af Heima með Helga, alla vega í bili.

Eilífðarpopparinn Helgi Björns hefur glatt innilokaða Íslendinga í heimsfaraldri síðustu mánuði með því að bjóða upp á skemmtun heima í stofu hjá sér alla laugardaga. Annað kvöld er lokaþáttur Heima með Helga og verður hann sem fyrr í beinu streymi í Sjónvarpi Símans. Helgi vill ekki frekar en venjulega gefa upp hvaða gestum hann býður í heimsókn að þessu sinni en það er ljóst að hann ætlar að enda tónleikaröðina með sprengju. Morgunútvarpið sló á þráðinn til Helga í morgun til að spyrja út í þessi tímamót.

„Það er svo mikið myrkur“

Veturinn og skammdegið leggjast ekkert sérstaklega vel í söngvarann, sérstaklega ekki á meðan dagurinn er enn að styttast. „Það er svo mikið myrkur. Það fer alltaf aðeins í taugarnar á mér,“ segir Helgi.

Hann er ekki einn af þeim sem lætur kertaljósin duga, hann lætur sig heldur dreyma um sólríka daga. „Ég vil vera sólarmegin í lífinu. Mér finnst þó janúar og febrúar alltaf skárri því þó það dynji á okkur stormar og él þá er að birta.“

Innblásinn af svalasöngvum Ítala

Hjónin Helgi og Vilborg Halldórsdóttir fengu hugmyndina að þáttunum í febrúar þegar veiran var byrjuð að breiðast út um Evrópu. Þau voru sjálf búsett á Ítalíu um árabil og eiga marga vini þaðan og fylgdust með hvernig gömlu félagarnir tókust á við faraldurinn. „Þau voru á undan okkkur að kljást við þetta og þá voru þau að fara af stað í streymi og Facebook-viðburði. Fara út á svalir að syngja og það má segja að það sé kveikjan hjá mér,“ segir Helgi.

Þegar faraldurinn færðist í aukana hér á landi ýtti það honum af stað í framkvæmdina. „Svo var það bara eins og hlutirnir verða til, maður missir stjórnina og þetta verður eins og snjóbolti sem rúllar áfram.“

„Þú ert ekki einn úti í horni“

Hugmyndin er að landsmenn fái á tilfininninguna að við séum öll saman í þessu, í sömu baráttunni en líka í sama partýinu, þó hver sé í sínu horni. „Ef það má nota myndlíkinguna að landið sé eins stofa má segja að við séum í horninu á stofunni með músíkina. Svo erum við bara að syngja með,“ segir hann.

Og það eiga allir að geta sungið með. „Að vinna með þennan tónlistararf sem er svo mikil gullkista. Við erum að tína upp úr honum lög sem allir þekkja og sameina okkur í gegnum það sem við höfum verið að hlusta á í gegnum áratugina.“

Tónleikarnir hafa verið mjög vinsælir og margir hafa klætt sig upp og reitt fram veitingar til að njóta þeirra. „Já, þú finnur að þú ert ekki einn úti í horni að horfa. Það eru allir að taka þátt, hver á sinn hátt.“

Rykkornin í augunum og allt fer af stað

Helga hafa borist margar kveðjur frá fólki sem þakkar honum fyrir uppátækið. „Í gær fékk ég símtal þar sem mér var þakkað frá dýpstu hjartarótum fyrir að létta fólki stundir. Og kannski þegar það eru gjafir fyrir utan hurðina þá brestur í manni. Rykkornin í augunum og allt fer af stað.“

Ekki endilega síðasti þátturinn

Þátturinn á morgun verður söfnunarþáttur til styrktar Mæðrastyrksnefnd. Þá verður hægt að hringja í símanúmer og styrkja um þúsund krónur.

En það verður líka mikið húllumhæ. „Við verðum með fullt af gestum en eins og hefur verið þema hjá okkur höfum við ekki sagt frá því hver er að koma. Það er partur af ákveðinni spennu. Þetta verður leikur hjá fólki, að giska hver komi í kvöld.“

Hann viðurkennir þó að hann sé ekki alveg viss um hvort þetta verður allra síðasta tækifærið til að upplifa heimatónleika Helga. „Það ber að varast að kalla eitthvað lokalokaloka, ég ætla ekki að lofa neinu með það,“ segir hann glettinn að lokum.

Rætt var við Helga Björnsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Helgi Björns ber sig vel þrátt fyrir aflýsingu í kvöld

Tónlist

Vestfirðingum finnst rigningin góð

Tónlist

Hræðilegt að vera par í leiklistarskólanum