Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin björgunarþyrla tiltæk fyrr en á sunnudag

27.11.2020 - 19:55
Mynd: Landhelgisgæslan / Ljósmynd
Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið í verkfalli frá 5. nóvember og frá því í gær hefur ekkert flugfar gæslunnar verið tiltækt þar sem ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi. Á ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að setja lög á verkfallsaðgerðir flugvirkja en einhugur var um málið innan ríkisstjórnarinnar.

„Það er auðvitað algjört neyðarúrræði að ráðast í lagasetningu á vinnudeilur. Þegar kemur að því að setja lög á vinnudeilur þá tel ég að það sé tvennt sem þarf að hafa í huga. Annars vegar að það sé fullreynt við samningaborðið og hins vegar áhrifin af vinnustöðvun,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Frumvarp dómsmálaráðherra felur meðal annars í sér að samninganefndirnar fái frest til 4. janúar til að ná samningum, annars verði deilan lögð fyrir gerðardóm.

„Ég tel að með þessu frumvarpi sé gengið fram af meðalhófi þar sem aðilar fá tækifæri fram í janúar til að ná samningum en ef það gangi ekki eftir verði skipaður gerðardómur,“ segir Katrín.

Aðspurð hvort það sé ekki erfitt fyrir formann Vinstri grænna að setja lög á verkfall segir hún: „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég geri það en þetta er aldrei góður kostur og á ekki að vera góður kostur enda er það mín sýn að við þurfum að endurskoða okkar vinnumarkaðskerfi þannig að ríkissáttasemjari hafi til að mynda úrræði til að fresta verkföllum þegar deilur eru komnar í hart eins og tíðkast víða í nágrannalöndum. En við höfum það úrræði ekki í íslenskum rétti því miður.“

Að óbreyttu snúa flugvirkjarnir aftur til starfa í kvöld og er gert ráð fyrir að ein þyrla verði orðin tiltæk á sunnudaginn. Uppsöfnuð viðhaldsþörf hefur þó áhrif allt fram í febrúar á næsta ári.