Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin beiðni um þyrluútkall ennþá

27.11.2020 - 07:08
Mynd með færslu
TF-GRO. Mynd úr safni. Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Landhelgisgæslunni barst engin beiðni um þyrluútkall í nótt og hefur ekki borist slík beiðni frá því um síðustu helgi. Engin þyrla Gæslunnar hefur verið tiltæk frá því á miðnætti í gær vegna verkfalls flugvirkja sem staðið hefur yfir frá því 5. nóvember. Samninganefndir flugvirkja og ríkisins tókust meðal annars á um gildistíma kjarasamnings í gær.

Skert viðbragðsgeta næstu daga

Búist er við að áfram verði engin þyrla til taks, að minnsta kosti út daginn í dag, viðbragðsgetan verði skert næstu daga og ef samningar nást ekki verður aftur engin þyrla tiltæk um miðjan desember. 

Samninganefndir flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins áttu langan og árangurslausan fund í gær. Viðræðurnar stranda fyrst og fremst á kröfu flugvirkja um tengingu kjarasamninga við aðalkjarasamninga flugvirkja hjá Icelandair. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Félags flugvirkja, sagði í fréttum í gær að ekki kæmi til greina að slá af þeim kröfum. Dómsmálaráðherra hefur sagt að það komi til greina að setja lög á verkfallsaðgerðirnar.

Tókust á um gildistíma samnings

Félag flugvirkja gerir kröfu um að samningurinn verði tengdur kjarasamningum flugvirkja Icelandair til þriggja ára. Þannig verði þeim tryggðar sömu launahækkanir og á almenna markaðnum. Félagið hafnaði í gær innanhússtillögu ríkissáttasemjara um að núgildandi samningur yrði framlengdur til loka næsta árs með tengingu við aðalkjarasamning flugvirkja. Þá hefðu flugvirkjar Gæslunnar notið góðs af þeim hækkunum sem komu til í aðalkjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair.

„Eitt ár kallar á að viðræður haldi áfram mjög fljótlega og með tilheyrandi óvissu sem ég tel að það sé ekki boðleg fyrir landsmenn út frá því ástandi sem ríkir nú,“ segir Guðmundur um tillögu ríkissáttasemjara. Samninganefnd ríkisins féllst hins vegar á hana.