Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útlit fyrir svipaðan fjölda smita á morgun

26.11.2020 - 20:12
Mynd: RÚV / RÚV
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum segir að ágætlega gangi að rekja þau smit sem hafa greinst utan sóttkvíar undanfarna daga. Útlit sé fyrir svipaðan fjölda smita á morgun og seinustu daga.

„Við erum með óþægilega mörg smit sem við getum ekki rakið upprunann. Það er vísbending um að það sé smit úti í samfélaginu sem við höfum ekki fundið“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að ekki sé orðið endanlega ljóst hversu margir greindust í dag, en útlitið sé svipað og undanfarna daga.

„Við erum að sjá svipað mynstur og seinustu daga. Við erum að sjá hærri tölu en við hefðum viljað sjá. núna snýst þetta svolítið um úthaldið. Við erum búin að standa okkur rosaega vel í góðan tíma og nú erum við að sjá vísbendingu um að við séum að missa þaðúr höndnum, okkur finnst það grátlegt. Við getum þetta, geymum laufabrauðshittinginn, geyma litlu partýin, reyna að halda okkur í gírnum og þá klárum við þetta,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að dæmi séu um að smit komi upp í litlum hópum sem dreifist hratt. Fólk safnist saman í mesta sakleysi.

„Til dæmis amma sem bíður heim til sín börnum og barnabörnum og tengdafólki í kaffi eins og gengur og gerist. Við erum með slatta af fólki sem er komið í einangrun út af því,“ segir Rögnvaldur.

Fólk sem fréttastofa tók tali í dag hafði ýmsar skoðanir á því hvort að fólk hafi slakað um of á persónulegum sóttvörnum.

„Ég veit ekki hvort ég á að slaka á, ég kem oft í Kringluna, og það hefur fjölgað mikið hér upp á síðkastið. Þú sérð það núna það eru langar biðraðir hérna, það er miklu meira fólk en til dæmis í sumar.“ segir Garðar Baldvinsson.

Þú hefur ekkert hugsað þig tvisvar um að koma hingað?

Jú, en ég læt vaða,“ segir Garðar. 

„Það er mjög mikið að gera hér eins og sést. Það sést að fólk sé að brjóta sóttvarnareglur hér og þar. Ég myndi segja að fólk sé að slaka á í því.“

Af hverju haldið þið að það sé?

Það er sérstaklega þegar það er svona mikið af afsláttum eins og tax free í Hagkaup og Black friday, fólk að nýta afslættina.“ segir Ísak Leví.

Er fólk í kringum þig farið að slaka á sóttvörnum? 

„Nei, mér finnst það ekki, ég geri það heldur ekki sjálf, ég held mig heima og fer í vinnu og aðeins svona versla í matinn og svona.“ segir Sigrún Erna Óladóttir.

En hvað ertu að gera hér núna?

Ég er að versla í matinn.“

Þannig þú hugsar þig tvisvar um áður en þú kemur hingað?

Já, ég passa mig að spritta mig og er með maska.“ segir hún.

„Mér hefur ekki fundist það neitt nýlega nei, sem betur fer. Nei, mér finnst það líka, það halda allir grímunum, mjög gott.“ segja þau Björg Jóhannesdóttir og Númi Geirmundsson

Þið eruð hér núna, hafið þið hugsað ykkur tvisvar um að koma hingað?

Við höfum ekki farið mikið á svona stóra staði, en nú þurftum við að kaupa jólagjafir.“ sögðu Björg Jóhannesdóttir og Númi Geirmundsson.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV