Tryggvi Snær sáttur eftir sigurinn

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Tryggvi Snær sáttur eftir sigurinn

26.11.2020 - 18:17
Tryggvi Snær Hlinason, miðherji íslenska landsliðsins í körfubolta, var brattur eftir sigur Íslands á Lúxemborg í undankeppni HM 2023 í dag. Tryggvi segir að Kósóvó verði krefjandi mótherji á laugardaginn kemur en hann er þó bjartsýnn á gott gengi.

 

„Heyrðu þetta var bara nokkurn veginn það sem við reiknuðum með. Þeir gerðu það sem við reiknuðum með að þeir ætluðu að gera, við reyndum að loka á þá, það gekk svona brösuglega til að byrja með en í lokin þá náðum við áttum við á því hvernig við ættum að spila gegn þeim,“ sagði miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason eftir leik Íslands og Lúxemborgar í undankeppni HM 2023. Eftir erfiðan upphafskafla tókst Íslandi að snúa leiknum sér í vil og vinna loks sextán stiga sigur, 90-76. Tryggvi Snær var atkvæðamestur Íslendinga með sautján stig og ellefu fráköst.

Ísland mætir Kósóvó í næsta leik á laugardaginn kemur.  

„Kósóvó er með gott lið. Við töpuðum á móti þeim síðast, heima hjá þeim, og við þekkjum þá ágætlega vel. Þetta verður erfiðari leikur. Þeir eru sterkari og verður örugglega erfiðara að „díla við“. En ég held að ef við spilum okkar leik og tökum vel á þeim, að þá eigum við að geta tekið þetta,“ sagði Tryggvi Snær.