Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Starfsfólk Amazon krefst margvíslegra umbóta

26.11.2020 - 17:25
epa08842929 A banner reading ’Tariff commitment now! We are on strike’ in front of the Amazon logistic center in Rheinberg, Germany, 26 November 2020. Trade union Verdi said that workers in Germany -- in Rheinberg, Werne, Leipzig, Graben, Koblenz and Bad Hersfeld -- go on strike during the top-selling shopping day Black Friday on 26 November as part of their long-running campaign for better pay and conditions.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Starfsmenn Amazon hyggjast efna til mótmæla og verkfalla á starfstöðum fyrirtækisins víða um heim á morgun 27. nóvember. Starfsfólki finnst framkoma fyrirtækisins gagnvart sér óásættanleg og því hafa aðgerðirnar yfirskriftina „Látum Amazon borga“ eða „Make Amazon Pay“.

Tímasetning aðgerðanna er ekki tilviljun því morgundagurinn, sem er kallaður Svartur föstudagur, hefur fest sig í sessi sem einn stærsti verslunardagur ársins í Bandaríkjunum. Sú hefð hefur einnig skotið rótum í mörgum öðrum löndum, þar á meðal á Íslandi.

ASÍ tekur þátt í aðgerðunum

Alþýðusamband Íslands ákvað á miðstjórnarfundi 4. nóvember síðastliðinn að taka þátt í aðgerðunum. Það er þó fyrst og fremst með „mórölskum hætti“, að sögn Snorra Más Skúlasonar sem annast upplýsinga- og kynningamál sambandsins.

Íslendingar séu notendur Amazon og því leggi ASÍ áherslu á að upplýsa félagsmenn sína og íslenska neytendur um aðbúnað og aðstöðu starfsfólksins.

Í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að þingmenn í fjölmörgum löndum hyggist sameinast um lagabreytingatillögur sem tryggja eiga réttindi og kjör starfsfólks Amazon sem er með starfstöðvar í fjórtán löndum.

Íþyngjandi vinnuaðstæður

Jeff Bezos forstjóri Amazon er sagður auðugasti maður heims og að ríkidæmi hans hafi aukist í kórónuveirufaraldrinum. Það sé vegna aukinna heimsendinga á verslunarvörum fyrirtækisins.

ASÍ lýsir erfiðum aðstæðum starfsfólks, starfsálag sé mikið og slysatíðni há, það fái litla hvíld frá vinnu og heilsu þess sé iðulega stefnt í voða.

Kröfurnar

Starfsmenn fyrirtækisins krefjast sanngjarnra launa, hlés á vinnutíma, öryggis á vinnustað og veikindaréttinda. Jafnframt er farið fram á að starfsöryggi verði aukið og látið verði af lausráðningum og gerviverktöku.

Sömuleiðis skuli fyrirtækið viðurkenna samningsrétt starfsfólks og virða tilvist stéttarfélaga. Eins er Amazon hvatt til að stefna að kolvetnishlutleysi fyrir 2030 og láta af stuðningi við málstað þeirra sem afneita loftslagsbreytingum.

Fyrirtækið er sömuleiðis brýnt til að greiða skatta, hætta að nota skattaskjól og draga úr einokun á markaði.