Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Snillingur og sá besti sinnar kynslóðar

Mynd: EPA-EFE / EPA

Snillingur og sá besti sinnar kynslóðar

26.11.2020 - 18:08
Einhver eftirminnilegusta íþróttalýsing sögunnar er þegar argentínski íþróttafréttamaðurinn Víctor Hugo Morales lýsir seinna marki Diego Armando Maradona í 2-1 sigri Argentínu á Englandi í 8 liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Mexíkó sumarið 1986.

Eitt besta, ef ekki besta mark knattspyrnusögunnar

Þetta mark þykir mörgum það besta í knattspyrnusögunni. Maradona tók á sprett frá eigin vallarhelmingi með boltanna og hljóp 60 metra. Á leiðinni lék hann á og gabbaði upp úr skónum fimm leikmenn enska landsliðsins áður en hann renndi boltanum í netið.

Eins og Bjarni Fel. sagði Speglinum í gær: Þetta var aðeins á færi snillinga. Og það efast enginn um að Maradona var snillingur í fótbolta og mörg fallegustu og flottustu tilþrifin í knattspyrnusögunni eru frá honum komin. En hann átti líka aðra hlið sem var dekkri. Fyrra mark Maradona í þessum leik er ekki síður frægt. Þá hafði hann rangt við og svindlaði, skoraði viljandi með hendi, hendi guðs eins og hann kallaði það. Diego Maradona lést í gær. Spegillinn fékk þau Víði Sigurðsson íþróttafréttamann á Morgunblaðinu og Örnu Steinsen fyrrum landsliðskonu í knattspyrnu til að segja frá Maradona, en þau fylgdust vel með honum í gegnum tíðina. 

Sá besti sinnar kynslóðar

Víðir: Við getum bara sagt að hann var besti fótboltamaður sinnar kynslóðar. Svo erum við alltaf að rífast um hver var bestur og allt það. Ég ólst upp við að það væri Pele. Svo kemur Maradona og svo núna í seinni tíð Messi og Ronaldo. En Maradona hafði svo einstaka hæfileika sem fótboltamaður, sem við höfum ekkert séð hjá neinum öðrum og það er mjög eðlilegt að mjög margir geri tilkall til þess að að hann sé sá besti sem uppi hefur verið í þessari íþrótt.

Arna: Hann var bara ótrúlega góður. Á þessum tíma sem hann verður heimsmeistari þá er hann algjör goðsögn. Hann var mjög góður. Hann var bestur. 

Jafnvægið ótrúlegt og tæknin frábær

Hvaða hæfileikar voru þetta?

Arna: Hann hafði rosalega gott jafnvægi. Mér fannst hann líkjast svolítið Messi. Messi hefur gríðarlegt jafnvægi. Það er alveg sama hvort það er verið að ýta á hann eða sparka í hann einhvern veginn, alltaf heldur hann jafnvæginu. Og ég held að það sama hafi gilt um Maradona. Það var svipað. Hann náði alltaf að hoppa upp úr öllu. Svo var hann gríðarlega  teknískur, alveg svakalega, alveg eins og Messi. Mér finnst þeir mjög líkir. 

Víðir: Hann var með svo ofboðslega gott jafnvægi og síðan var leikskilningurinn alveg fullkominn hjá honum. Þeir sem spiluðu á móti honum sögðu að það hefði ekkert verið hægt að halda aftur af honum. Hann var alltaf með menn í sér. Það voru settir á hann einn eða tveir menn til að stoppa hann í hverjum leik, en það þýddi ekkert því hann var svo klókur að snúa sér út úr öllum stöðum. Hann las leikinn svo vel og hann birtist á ólíklegustu stöðum. Það var nánast vonlaust verk fyrir varnarmenn og varnartengiliði að halda aftur af honum því hann komst alltaf frá þeim. Hann leysti allar stöður svo snilldarlega.    

HM 1986 var hápunkturinn

Hvenær átti hann sínar bestu stundir? 

Víðir: Ég held að hápunkturinn hljóti að vera HM 1986 í Mexikó þegar hann er besti maður keppninnar, fer fyrir argentínska liðinu, sem verður heimsmeistari og skorar svo þessi tvö frægu mörk, sem allir muna eftir, alltaf. Það má segja að glæsilega markið hans hafi pínulítið fallið í skuggann af hinu þar sem hönd Guðs kom við sögu. En svo skoraði hann eftir 60 metra einleikssprett gegn Englandi í sama leik. Maður skilur að það hafi verið valið mark 20. aldarinnar og er eflaust eitt magnaðasta mark sögunnar í þessari íþrótt. 

Dökku hliðarnar

En hann var breyskur?

Arna: Já. Hann var það. Hann var náttúrulega með rosalegt skap. Og það er staðreynd að hann fór ekki nógu vel með sig. Ég veit ekki hvort það var byrjað á þessum tíma, en fljótlega eftir HM 86 þá er eitthvað sem truflar hann. Það er greinilegt. Hann kemur úr fátækt og það er kannski ýmislegt sem hann hefur upplifað. Ég veit það ekki. 

Víðir: Hann var mjög breyskur. Og kannski er það akkúrat ástæðan fyrir því að hann er svona er svona gríðarlega vinsæll enn þá, sextugur. Hann hefur verið í fréttum alla tíð. Alveg frá því hann hætti að spila 37 eða 38 ára gamall. Hann hefur endalaust verið í fréttum síðan af alls konar ástæðum. Hann lenti í eiturlyfjaveseni sem leikmaður og alls konar hlutum. Hann átti sínar góðu og slæmu hliðar. Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann er svona gríðarlega umtalaður og vinsæll. 

Spilaði fyrir fólkið

Arna: Hann spilaði fyrir fólkið. Hann sagði það alltaf. Og svo kemur hann úr fátækt og þá horfir fólk öðruvísi á hann. Hann spilaði fyrir fólkið og það er fyrst og fremst ástæðan fyrir þessum vinsældum.  

Þú sagðir áðan að það væri erfitt að meta og bera saman getu knattspyrnumanna á mismunandi tímum. Hvar stendur Maradona?

Víðir: Þetta er erfitt. Ég hef alltaf verið Pele maður vegna þess að hann var mitt goð í æsku. Svo kemur Maradona. Hann er jafnaldri minn og ég elst upp með honum. Ef maður horfir á heildar hæfileikana þá er mjög erfitt að setja hann annars staðar en í fyrsta sæti.

Arna: Ég verð eiginlega að viðurkenna að mér finnst hann bestur ásamt Messi. Ég veit að margir myndu kjósa Ronaldo. En Maradona var algjör goðsögn, frábær í fótbolta og tekniskur og Messi minnir mig á hann. Maradona er einn af þessum toppum. Það verður að viðurkennast. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Hönd Guðs eða hönd Maradona?

Þriggja daga þjóðarsorg í Argentínu

Heimurinn minnist Maradona - Hjartnæm kveðja frá Pelé

Fótbolti

Mætti Maradona 1983 - „Allar snertingar upp á tíu“