Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smit í verslunum og vísbendingar um háan smitstuðul

26.11.2020 - 11:21
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Nú eru uppi vísbendingar um að jákvæð þróun kórónuveirufaraldursins gæti verið að snúast við og smitstuðullinn að hækka. Samfélagssmit virðist hafa aukist aftur síðustu daga og smitin eru einna helst rakin til stórra verslunarmiðstöðva og veisluhalds. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Þórólfur sagði að almennt mætti segja að bylgjan væri á niðurleið og jafnvel komin niður. Það mætti þakka samstöðu almennings. Þó væri áhyggjuefni hversu margir greindust enn utan sóttkvíar og hversu vandasamt reyndist að rekja smitin. Þá sagði Þórólfur teikn á lofti um að smitstuðullinn gæti verið að fara aftur upp á við.

Smit í stórum verslunarmiðstöðvum og veislum

Í rakningu hefur komið í ljós að mörg nýrra smita megi rekja til stórra verslunarmiðstöðva. Þá hafi fólk farið óvarlega í veisluhöldum, sérstaklega um síðustu helgi. Einnig væri áhyggjuefni að fólk virtist hafa farið óvarlega í sóttkví og síðan reynst smitað. Þórólfur minnti á að það væri rík ástæða til að varast alla hópamyndun.

Hann varaði við því að fólki yrði smalað inn í stórar verslanir. „Það getur ýmislegt gerst þar svo ég hef ákveðnar áhyggjur af því,“ sagði hann. 

Hann minntist einnig á mikilvægi þess að hafa í huga að margir greindust á landamærunum og sagði að nú væru í gildi aðgerðir til að minnka og lágmarka áhættuna á því að smit bærist frá þeim inn í samfélagið, „með því að halda fólki við efnið“.

Gæti breytt tillögum

Þórólfur hefur sent tillögur til heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi í byrjun desember. Hann sagði ekki tímabært að greina frá tillögunum og að ef útbreiðslan héldi áfram að vaxa gæti hann þurft að endurskoða tillögurnar fyrir þann tíma.

„Í mínum huga stöndum við á krossgötum þar sem er mikið ákall eftir frekari afléttingum aðgerða en á sama tíma sjáum við merki um að faraldurinn gæti verið að fara af stað enn á ný,“ sagði hann.