Óbófantasía Brittens

Mynd: - / SÍ

Óbófantasía Brittens

26.11.2020 - 17:00

Höfundar

Fantasíukvartett Benjamins Britten stimplaði tónskáldið rækilega inn í heim breskra tónsmiða þegar hann var einungis 19 ára.

Halla Oddný Magnúsdóttir, viðburðastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, skrifar:

Heimsending Sinfóníuhljómsveitar Íslands er að þessu sinni úr smiðju breska tónskáldsins Benjamins Britten, en það er Fantasía fyrir óbó og strengjakvartett, einnig þekkt undir nafninu Fantasíukvartett opus 2. Sem fyrr eru það hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands sem annast flutninginn, en það eru þær Julia Hantschel, óbóleikari, Gunnhildur Daðadóttir, fiðluleikari, Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóluleikari og Guðný Jónasdóttir, sellóleikari. Allar eru þær mikilhæfir kammertónlistarmenn til viðbótar við að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Britten samdi Fantasíukvartettinn haustið 1932, þegar hann var aðeins 19 ára, og var framlag hans í tónlistarkeppni sem menningarfrömuðurinn Walter Willson Cobbett stóð fyrir til þess að efla breska kammertónlist, sem þótti heldur daufleg um þær mundir. Verkið var tileinkað óbóleikaranum Leon Goossens og það var hann sem frumflutti verkið ásamt strengjaleikurum í útsendingu í breska ríkisútvarpinu BBC í ágúst ári síðar.

Þessi flutningur varð til þess að stimpla tónskáldið unga rækilega inn í heim breskra tónsmíða og bar verkið hróður Brittens út fyrir landsteinana. Greinilegt er að Britten hefur haft dálæti á björtum en mjúkum tónum óbósins, en hvað formið varðar sækir Britten í fantasíur úr sögu breskrar hljóðfæratónlistar á fimmtándu og sextándu öld. Hann sýnir fádæma fágun í öllu handverki, en verkið kallast jafnframt á við ýmislegt sem var á seyði í framúrstefnulegri tónlist hans eigin samtíma.

Heimsendingar Sinfóníuhljómsveitar Íslands halda áfram, en þær birtast á menningarvef RÚV og vefnum sinfonia.is á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17 meðan samkomubann hamlar hefðbundnu tónleikahaldi.

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Haustlitaferð um sálarlíf Brahms

Klassísk tónlist

Meiri nánd við að bjóða fólki heim í stofu á tónleika

Klassísk tónlist

Hálfkláruð hornsónata Beethovens sem sló í gegn

Klassísk tónlist

Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands: Dúó Edda