Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líðan unglinga hefur versnað mikið

26.11.2020 - 21:23
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Líðan ungmenna hefur versnað mikið á síðustu tveimur árum, sérstaklega hjá stúlkum. Um 70% þeirra segjast finna fyrir meiri og fleiri erfiðum tilfinningum nú heldur en áður en heimsfaraldurinn skall á. Ástandið virðist hafa minni áhrif á drengina en þónokkur samt. Þetta kemur fram í nýrri könnun sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík líðan 16 ára ungmenna.

Könnunin var gerð á meðal 400 ungmenna sem fædd eru árið 2004. Þau eru því á 16 ári og luku grunnskóla í sérkennilegu ástandi í  vor og eru flest að stíga sín fyrstu skref í framhaldsnámi, aftur í sérkennilegu ástandi. 

Erfiðar tilfinningar eins og áhyggjur, depurð, einmanaleiki, eirðarleysi, kvíði og óhamingja hafa aukist í faraldrinum hjá unglingunum. Rúmlega 70% stúlknanna segjast finna fyrir meiri einmanaleika en áður og 68% finna fyrir auknum áhyggjum. Tölurnar eru miklum mun lægri hjá drengjunum en engu að síður þannig að þriðjungur drengjanna segjast finna fyrir auknum áhyggjum, depurð og einmanaleika.

Rannsóknin sýnir líka að þunglyndi hefur aukist meðal unglinga í þessum árgangi frá því að þeir voru 12 ára. Aftur má greina að þunglyndiseinkennin eru miklum mun meiri hjá stúlkunum en drengjunum og aukast hratt og mikið eftir 14 ára aldur.

Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að ef tölurnar eru skoðaðar og bornar saman við jafnaldra fyrir faraldurinn þá sé talsverð hækkun bara hjá stúlkum í þunglyndiseinkennum.

„En það er ekki hækkun hjá strákunum. En hins vegar þegar við erum að kíkja á aðra þætti eins og reiði og pirring og þvíumlíkt þá er talsverð hækkun frá fyrri mælingum hjá bæði stúlkum og strákum.“

Stúlkunum reynsit erfiðara að hitta ekki vini sína og þær hafi líka mun meiri áhyggjur af námsárangri sínum en drengirnir.

„Svo er mjög sterkt samband líka milli þunglyndis hvernig stúlkur eru að nota samfélagsmiðla á óvirkan hátt. Þær eru frekar að fylgjast með hvað aðrir eru að gera heldur en að vera í beinum samskiptum við aðra og það hefur mikil tengsl við þunglyndiseinkenni hjá stúlkum á þessum aldri.“

Nánar verður fjallað um niðurstöðurnar í fyrirlestri sem haldinn verður á vegum HR á morgun.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV