Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kórónuveirusmitum fjölgar á ný

26.11.2020 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað aftur í þessari viku. Þeim fækkaði talsvert í síðustu viku. Fleiri smit greinast nú í fólki sem er ekki í sóttkví. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.

Ellefu greindust með smit í gær. Aðeins þrír af þeim voru í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að bylgjan sé á niðurleið. Hann segir að það sé samstöðu almennings að þakka. Hann hefur þó áhyggjur af því hvað mörg smit greinast í fólki sem er ekki í sóttkví og hvað erfitt er að rekja smitin.

Smit í stórum verslunarmiðstöðvum og veislum

Smit hafa verið rakin til stórra verslunarmiðstöðva. Þá hefur fólk farið óvarlega í veisluhöldum, sérstaklega um síðustu helgi. Þórólfur segir að sumt fólk virðist hafa farið óvarlega í sóttkví og svo hafi komið í ljós að það var smitað. Hann minnti á að allir ættu að varast hópamyndun.

Gæti breytt tillögum um sóttvarna-aðgerðir

Þórólfur hefur sent heilbrigðisráðherra nýjar tillögur um sóttvarnaaðgerðir. Þær eiga að taka gildi í byrjun desember. Hann vildi ekki segja frá þeim. Hann sagði að hann gæti þurft að endurskoða tillögurnar ef smitum heldur áfram að fjölga.

Víðir með COVID-19

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er með COVID-19. Hann hefur verið í sóttkví síðan á mánudag. Hann er í einangrun en finnur ekki fyrir einkennum. Þetta hefur ekki áhrif á almannavarnateymi ríkislögreglustjóra sem stýrir aðgerðum gegn COVID-19.

Víðir fór í sýnatöku á mánudag. Sýnið var neikvætt fyrir kórónuveirunni. Þess vegna er ekki talin ástæða til að setja nánasta samstarfsfólk hans í sóttkví. Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og almannavarnateymið fóru líka í sýnatöku á mánudag. Öll sýnin voru neikvæð.

Víðir hefur tvisvar farið í sóttkví í faraldrinum. Hann verður í einangrun í tvær vikur eða þar til hann hefur fengið neikvætt sýni fyrir COVID-19.

Víðir, Alma og Þórólfur eru þríeykið sem hefur stýrt aðgerðum íslenskra stjórnvalda í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hér á landi.