Ísland skrefi nær EM

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ísland skrefi nær EM

26.11.2020 - 16:30
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann Slóvakíu ytra 3-1 í kvöld. Úrslitin þýða að Ísland er skrefi nær því að komast á EM 2022.

Þetta var næst síðasti leikur Íslands í undankeppni EM 2022 og er Ísland r í harðri baráttu um að komast í lokakeppni EM. Sigur í dag var því gríðarlega mikilvægur fyrir íslenska liðið. 

Það byrjaði þó ekki vel fyrir Ísland því Slóvakía komst yfir í leiknum á 25. mínútu þegar Mária Mikolajová skoraði fyrir Slóvaka. Staðan var 1-0 í hálfleik en íslenska liðið lét til sín taka í síðari hálfleik. 

Á 61. mínútu jafnaði Berglind Björg Þorvaldsdóttir metin fyrir Ísland eftir frábæra sókn.

Íslenska liðið efldist töluvert við jöfnunarmarkið og á 67. mínútu fékk Ísland dæmta vítaspyrnu. Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði, tók vítið en markvörður Slóvaka varði. Dómari leiksins lét þó endurtaka spyrnuna þar sem markvörður gestanna hafði farið af marklínunni í aðdragandanum. Sara Björk skoraði úr spyrnunni og Ísland þar með komið í forystuna.

Tíu mínútum síðar fékk Ísland aftur dæmda vítaspyrnu. Sara Björk steig aftur á vítapunktinn og breytti stöðunni í 3-1.

3-1 reyndust lokatölur í Slóvakíu í kvöld og Ísland nældi um leið í afar mikilvæg þrjú stig. Svíþjóð er nú þegar búið að tryggja sér efsta sætið í riðli Íslands en nái Ísland að vera eitt af þremur liðum með bestan árangur í 2. sæti síns riðils kemst íslenska liðið beint á EM. Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í undankeppninni þann 1. desember og nái Ísland þremur stigum úr þeim leik er íslenska liðið afar líklegt til að komast beint á EM.