
Ekkert lát virðist á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins
Joe Biden, tilvonandi forseti, ávarpaði Bandaríkjamenn í tilefni Þakkargjörðarhátíðarinnar og hvatti þá til bjartsýni. „Lífið verður eðlilegt aftur,“ sagði Biden og bætti við að faraldurinn varaði ekki að eilífu.
Austur í Rússlandi fjölgaði smituðum um ríflega 25 þúsund síðasta sólarhring og 524 létust, sem er metfjöldi annað skiptið í vikunni. Suður-Kóreumenn óttast að þriðja bylgja faraldursins sé yfirvofandi en tilfellum hefur fjölgað mjög þar í landi undanfarið.
Um það bil vika lifir af ströngum samkomutakmörkunum sem hafa víðtæk áhrif á daglegt líf 23 milljóna á Englandi. Enn er vonast til að aðstæður leyfi að slaka á takmörkunum þar í landi.
Þjóðverjar hafa farið þess á leit við Austurríkismenn að þeir loki skíðastöðum sínum fram í janúar. Óttast er að skíðaþyrstir Evrópubúar flykkist ella til Austurríkis en allar skíðabrekkur í Þýskalandi og Frakklandi eru lokaðar.
Talsmenn lyfjafyrirtækisins AstraZeneca segja efasemdir um vernd bóluefnis þess gegn kórónuveirunni kalla á frekari rannsóknir á því. Það hamli þó vart leyfum til notkunar þess í Evrópu.
Undanfarinn sólarhring greindust 635 þúsund ný kórónuveirutilfelli á heimsvísu og yfir tólf þúsund létust. Langflest smit og dauðsföll má rekja til Bandaríkjanna, Brasilía er í öðru sæti og Indland í því þriðja.