Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áfram hríðarveður með dimmum og hvössum éljum

26.11.2020 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Flestar veðurviðvaranir frá því í gær detta úr gildi nú í morgunsárið en með morgninum taka þær aftur gildi víða á landinu og útlit er fyrir að suðvestanáttin haldi jafnvel fram á sunnudag.

Á höfuðborgarsvæðinu gildir gul viðvörun frá klukkan níu til klukkan fimm í fyrramálið með suðvestanátt 15-23 m/s og mjög dimmum éljum. Varað er við hálku og slæmu skyggni. Svipað á Suðurlandi og þar gildir gul viðvörun til klukkan 8 í fyrramálið. 

Appelsínugul viðvörun tekur gildi um hádegisbil í dag við Faxaflóa og á Breiðafirði og verður í gildi til klukkan ellefu í kvöld. Þar varar Veðurstofan við versnandi akstursskilyrðum. Á Vestfjörðum tekur aftur gildi gul viðvörun klukkan tíu og gildir til klukkan þrjú í nótt. Þar má búast við suðvestan 18-25 m/s og talsverðum éljagangi, takmörkuðu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. 

Á Ströndum og Norðurlandi eystra verður í gildi gul viðvörun frá hádegi í dag og fram til klukkan átta í fyrramálið. Þar er spáð 18-25 m/s og miklu hvassviðri. 

Á miðhálendinu tekur gildi gul viðvörun vegna suðvestan storms klukkan tvö í dag og verður í gildi til klukkan tíu í fyrramálið. Þar verður talsverður éljagangur og lélegt skyggni. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV