Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vont veður á mestöllu landinu í kvöld og á morgun

25.11.2020 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Veðrið fer að versna um mestallt landið í dag og í kvöld. Veðrið verður vont fram á miðnætti annað kvöld.

Appelsínugul viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra

Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan átta í kvöld á Ströndum, Norðurlandi vestra og miðhálendinu. Hún verður í gildi til klukkan tíu í fyrramálið.

Þar verður mjög hvasst í kvöld og í nótt, sunnanátt, 18-28 metrar á sekúndu. Það verður snjókoma eða slydda á Ströndum, Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði.

Gul viðvörun á Vestfjörðum og Vesturlandi

Klukkan fimm í dag tekur gul viðvörun gildi á Vestfjörðum, Breiðafirði og Faxaflóa. Hún verður í gildi þangað til í fyrramálið.

Gul viðvörun tekur gildi í kvöld á Vesturlandi. Hún verður í gildi fram á miðnætti annað kvöld. Færðin versnar fljótt á fjallvegum.

Það verður suðaustanátt, 15-23 metrar á sekúndu. Því fylgir snjókoma eða slydda. Fjallvegir á Snæfellsnesi geta orðið ófærir mjög fljótt.

Gul viðvörun á Suðurlandi

Klukkan sjö tekur gildi gul viðvörun á Suðurlandi. Þar verða líka 15-23 metrar á sekúndu. Það verður slydda eða snjókoma á Hellisheiði og í Þrengslum. Það verður líka slydda eða snjókoma inn til landsins en rigning við ströndina.

Gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu

Klukkan sjö tekur gul viðvörun gildi á höfuðborgarsvæðinu. Þar verður suðaustanátt 13-23 metrar á sekúndu. Hvassast verður á Kjalarnesi. Snjókoma eða slydda til að byrja með og svo kemur talsverð rigning. Búast má við að færðin verði vond á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstofan varar við mikilli hálku á götum og gangstéttum.

Færð versnar fljótt á fjallvegum

„Þetta er bara dæmigert vetrarveður,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur á Veðurstofunni. „Það ganga öflug skil yfir landið í nótt með vaxandi suðaustan- og sunnanátt strax seinni partinn í dag. Það byrjar með snjókomu og slyddu og fer síðan yfir í talsverða rigningu þannig að það má búast við að færð versni fljótt á fjallvegum,“ segir Helga í samtali við fréttastofu.

Engar viðvaranir eru gefnar út fyrir Suðausturland og Austfirði.

Viðvaranir Veðurstofunnar

Veðurstofa Íslands notar viðvaranir til að gefa til kynna hvað slæmt veður hefur mikil áhrif á daglegt líf fólks.

Viðvaranirnar eru gular, appelsínugular eða rauðar eftir því hversu slæmt veðrið er.

Þegar gul viðvörun er í gildi þarf að fara varlega. Þá getur veðrið valdið töfum í umferð, slysum á fólki og tjóni á hlutum. Þess háttar veður er nokkuð algengt. Þá þurfa allir að fara gætilega og helst ekki fara í ferðalög nema vita hvernig veðrið og færðin er á leiðinni.

Þegar appelsínugul viðvörun er í gildi er líklegt að veðrið hafi mikil áhrif á samfélagið. Veðrið getur valdið slysum á fólki og tjónum á hlutum. Þá þurfa allir að fara mjög varlega. Fjallvegum er yfirleitt lokað. Ekki fara í ferðalög þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi. Þá er ekkert ferðaveður eins og stundum er sagt.

Þegar rauð viðvörun er í gildi er veðrið mjög vont. Þá getur verið hættulegt að vera á ferðinni. Veðrið getur valdið slysum eða dauða. Þá er líka mikil hætta á að hlutir skemmist eða eyðileggist. Þá á alls ekki að vera á ferðinni utanhúss. Þá má líka búast við að vegir lokist og aðgengi að þjónusta skerðist.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur